Guðfinna Þorsteinsdóttir

Guðfinna Þorsteinsdóttir (18911972) var íslensk skáldkona sem gaf út ljóð og frásöguþætti undir skáldanafninu Erla skáldkona.

Guðfinna fæddist á Skjögrastöðum á Völlum. Foreldrar hennar voru Rannveig Sigfúsdóttir (1869-1952) frá Skjögrastöðum og Þorsteinn Eiríksson (1860-1929) frá Gröf í Eiðaþinghá.

Átta ára gömul var Guðfinna send í fóstur til Krossavíkur í Vopnafirði. Árið 1917 giftist Guðfinna Pétri Valdimari Jóhannessyni (1893-1953) frá Syðri-Vík. Þau hófu búskap sinn á heiðarbýlinu Brunahvammi í Fossdal í Vopnafirði.

Eftirfarandi vísu orti Guðfinna í Brunahvammi:

Kvöld í sveit
Hofsá rennur hægt að sævi,
hvamminn fyllir nið.
Fuglakvak í kjarri rýfur
kvöldsins þögn og frið.

Guðfinna og Valdimar fluttust nokkrum sinnum búferlum í hjúskapartíð sinni. Í Brunahvammi voru þau frá 1917-1922, þaðan fluttust þau til Hróaldsstaða, árið 1924 flutti svo fjölskyldan að Felli þar sem þau bjuggu í þrjú ár. Árið 1927 fluttu þau svo í Teig þar sem fjölskyldan bjó til ársins 1954. Guðfinna og Valdimar eignuðust níu börn.

Guðfinna, undir skáldanafninu Erla, gaf út bækurnar Hélublóm (1937), Fífulogar (1945), Slagur vindhörpunnar (þýðing á skáldsögu William Heinesen) (1956), Völuskjóða (1957), Æfintýri dagsins (1958) og Vogrek (1959).