Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili

Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili (hét áður Elli- og hjúkrunarheimilið Grund) er elsta starfandi heimili fyrir aldraða hér á landi.

Hvatamenn að stofnun Grundar voru stjórnarmenn líknarfélagsins Samverjans, Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason guðfræðingur, Flosi Sigurðsson trésmíðameistari, Páll Jónsson skrifstofumaður, Haraldur Sigurðsson verslunarmaður og Júlíus Árnason kaupmaður. Í byrjun september 1922 keypti stjórn Samverjans steinhúsið Grund, sem stóð vestan við Sauðagerðistún, eða við Kaplaskjólsveg og var húsið vígt 29. október sama ár. Í upphafi voru heimilismenn 21.

Sumarið 1927 úthlutaði bæjarstjórn Reykjavíkur heimilinu lóð milli Hringbrautar og Brávallagötu. Nýtt hús var vígt 28. september 1930 og nefnt Grund, eins og gamla húsið við Kaplaskjólsveg. Fjöldi heimilismanna á þeim tíma var 56. Árið 1934 voru heimilismenn orðnir 115.

Fyrsti framkvæmdastjóri Grundar var Haraldur Sigurðsson. Eftir andlát hans árið 1934 var Gísli Sigurbjörnsson ráðinn forstjóri heimilisins og var það þar til hann lést 7. janúar 1994. Guðrún Birna Gísladóttir dóttir Gísla tók þá við sem forstjóri Grundar og gegnir hún því starfi enn í dag.

Árið 1952 tók Grund að sér rekstur Dvalarheimilisins Áss í Hveragerði fyrir elliheimilisnefnd Árnessýslu. Það heimili var rekið í tveimur húsum og heimilismenn voru þrettán fyrsta árið. Í dag er Ás í eigu Grundar og árið 1998 var tekið í notkun nýtt hjúkrunarheimili í Ási. Heimilismenn í Ási eru um 156.

Heimilismenn Grundar eru nú um 210. Hjúkrunarrýmin eru samtals 181 Húsakosti á Grund er skipt í fernt

  • Aðalbygging sem snýr út að Hringbraut en þar eru 5 hjúkrunardeildir
  • Minni Grund
  • Litla Grund
  • 4 hjónaíbúðir á Brávallagötu 42

Viðbygging við austurálmu Grundar var tekin í notkun 29. október 2002 á 80 ára afmæli heimilisins. Ári síðar var viðbygging við vesturálmu tekin í notkun. Lokið er við byggingu glergangs sem tengir Litlu- og Minni Grund við aðalbygginguna.

Rúmlega 300 manns eru starfandi á Grund og eru starfsmenn frá 19 þjóðlöndum.

Heimild

breyta