Gramlitun er frumulitunaraðferð sem notuð er til að skipta gerlum (bakteríum) í tvo hópa: Gram-jákvæða og Gram-neikvæða gerla. Aðferðin greinir á milli hinna tveggja megin byggingarforma frumuveggja sem finnast meðal baktería og eru þau nefnd eftir litunarsvöruninni (Gram-jákvæðir og Gram-neikvæðir frumuveggir).[1] Einstaka tegundir baktería sýna veika svörun eða breytilega eftir ræktunaraðstæðum og eru þær sagðar ýmist Gram-breytilegar eða óflokkanlegar með Gramlitun.

Bacillus cereus (Gram-jákvæð)
Escherichia coli (Gram-neikvæð)

Aðferðin er nefnd eftir danska lækninum og örverufræðingnum Hans Christian Gram, en hann þróaði hana árið 1884 til að greina á milli tveggja sýkla sem valda sýkingum með svipuð sjúkdómseinkenni: Streptococcus pneumoniae og Klebsiella pneumoniae.[2]

Notagildi breyta

Gramlitun gagnast við flokkun baktería vegna þess að hún endurspeglar að hluta þróunarsögu þeirra. Þannig eru meðlimir fylkinganna Firmicutes og Actinobacteria eingöngu með Gram-jákvæða frumuveggi og finnast þeir ekki meðal annarra baktería. Aðferðin er þó aldrei notuð ein og sér við flokkun baktería og hefur raðgreining DNA að miklu leyti leyst hana af hólmi í þessum tilgangi. Litunin er þó enn mikið notuð til sjóngervingar, en ólitaðar bakteríufrumur sjást illa í venjulegri ljóssmásjá.

Þó lita megi fyrnur með Gramlitun eru þær ekki flokkaðar eftir Gramsvörun, því hún endurspeglar ekki þróunarsögulegan skyldleika þeirra, enda er bygging frumuveggja í fyrnum nokkuð frábrugðin því sem gerist hjá bakteríum. [3]

Aðferðin breyta

Gramlitun er framkvæmd í fjórum meginskrefum[4][5]:

  • Frumlitun með fjólubláa litarefninu crystal violet (CV). Það smýgur í gegn um frumuveggi og frumuhimnur bæði Gram-jákvæðra og Gram-neikvæðra bakteríufrumna.
  • Meðhöndlun með joðlausn sem hvarfast við CV þannig að stórir CV-joð flókar myndast.
  • Skolun með etanóli eða acetóni fleytir CV-joð flókunum út úr Gram-neikvæðum frumum, en hin þykka, marglaga bygging Gram-jákvæðra frumuveggja kemur í veg fyrir að CV-joð flókarnir skolist þar út. Að þessu skrefi loknu eru því Gram-jákvæðar frumur fjólubláar að lit, en Gram-neikvæðar eru litlausar.
  • Endurlitun með safraníni eða fúksíni litar svo Gram-neikvæðu frumurnar bleikar.

Heimildir breyta

  1. Bergey, D. H. (1994). Bergey's Manual of Determinative Bacteriology (9. útg.. útgáfa). Lippincott Williams & Wilkins. ISBN 0-683-00603-7.
  2. Gram, H. C. (1884). „Über die isolierte Färbung der Schizomyceten in Schnitt- und Trockenpräparaten“. Fortschritte der Medizin. 2: 185–189.
  3. Beveridge T. J. (2001). „Use of the Gram stain in microbiology“. Biotechnic & Histochemistry. 76: 111–118. doi:10.1080/714028139. PMID 11475313.
  4. Beveridge, T. J. og J. A. Davies (1983). „Cellular responses of Bacillus subtilis and Escherichia coli to the Gram stain“. Journal of Bacteriology. 156: 846–858. PMID 6195148.
  5. Davies, J. A., G. K. Anderson, T. J. Beveridge og H. C. Clark (1983). „Chemical mechanism of the Gram stain and synthesis of a new electron-opaque marker for electron microscopy which replaces the iodine mordant of the stain“. Journal of Bacteriology. 156: 837–845. PMID 6195147.