Skafti Þóroddsson
Skafti Þóroddsson (d. 1030) var íslenskur lögsögumaður á 11. öld. Hann bjó á Hjalla í Ölfusi og þótti einn vitrasti og lögfróðasti maður síns tíma.
Faðir Skafta var Þóroddur spaki Eyvindarson, goði á Hjalla, en móðir hans var Rannveig Gnúpsdóttir Molda-Gnúpssonar. Skafti tók við embætti af Grími Svertingssyni móðurbróður sínum árið 1004 og var lögsögumaður til dauðadags 1030, eða í tuttugu og sjö sumur. Hann var mjög röggsamur í embætti og eitt hans fyrsta verk var að koma á fimmtardómi „ok þat, at engi vegandi skyldi lýsa víg á hendr öðrum manni en sér, en áðr váru hér slík lög of þat sem í Norvegi,“ segir Ari fróði í Íslendingabók og bætir svo við „Á hans dögum urðu margir höfðingjar ok ríkismenn sekir eða landflótta of víg eða barsmíðir af ríkis sökum hans ok landstjórn.“
Það er því ljóst að Skafti hefur tekið til hendinni og beitt hörðum aðgerðum til að friða landið og binda enda á ættarstríð og erjur sögualdar, en lok hennar eru yfirleitt miðuð við dánarár hans. Íslendingasögur gerast þó flestar fyrir daga hans að mestu og ekkert er nú vitað um hverja hann gerði landræka fyrir víg og barsmíðar. Ekki er þó vitað um neinn goðorðsmann sem varð sekur skóggangsmaður eða landflótta á 11. öld og kunna munmælasögur um þá að hafa gleymst. „Þó er höfundi Njálu af einhverjum ástæðum blóðilla við Skafta,“[1] segir Björn Sigfússon. Hvað sem því líður hafði honum tekist fyrir dauða sinn að koma á friði og efla réttargæslu svo að dugði að mestu fram undir Sturlungaöld.
Í Kristni sögu segir að Skafti hafi verið vitrastur allra lögsögumanna. Hann virðist hafa verið mjög fróðleiksfús og lagt sig eftir að afla sér þekkingar um hvernig málum var háttað í öðrum löndum: „Skafti Þóroddsson hafði þá lögsögu á landinu. Víða af löndum spurði hann að siðum manna, þá menn er glöggst vissu, og leiddi mest að spurningum um kristinn dóm, hvernug haldinn væri bæði í Orkneyjum og á Hjaltlandi og úr Færeyjum og spurðist honum svo til sem víða mundi mikið á skorta að vel væri. Slíkar ræður hafði hann oft í munni eða um lög að tala eða um landsrétt.“[2]
Kona Skafta var Þóra Steinsdóttir. Synir þeirra voru Þorsteinn holmunnur og Steinn Skaftason, sem var lengi í Noregi og er af honum sérstakur söguþáttur, Steins þáttur Skaftasonar, en dóttir þeirra var Þorkatla, sem giftist Katli, bróður Ísleifs biskups.
Tilvísanir
breyta- ↑ http://timarit.is/view_page_init.jsp?pageId=3642336 Grein í Frjálsri þjóð 34. tbl. 1959
- ↑ http://is.wikisource.org/wiki/Heimskringla/%C3%93lafs_saga_helga/58 Ólafs saga helga.
Tenglar
breyta- „Íslendingabók Ara fróða“.
- „Frá hreppakryt til fjórðungaskipunar. Frjáls þjóð, 34. tbl. 1959“.
- Skaft lögsögumaður Þóroddsson; Janus Jónsson, Andvari janúar 1916, bls. 110–140.