Marcus Antonius Gordianus (20. janúar 225 – 11. febrúar 244), þekktur sem Gordianus 3. var keisari Rómaveldis á árunum 238 – 244. Gordianus var dóttursonur Gordianusar 1. og systursonur Gordianusar 2..

Gordianus 3.
Rómverskur keisari
Valdatími 238 – 244

Fæddur:

20. janúar 225

Dáinn:

11. febrúar 244
Dánarstaður Zaitha
Forveri Pupienus og Balbinus
Eftirmaður Philippus arabi
Maki/makar Furia Sabinia Tranquillina
Móðir Antonia Gordiana
Fæðingarnafn Marcus Antonius Gordianus
Keisaranafn Caesar Marcus Antonius Gordianus Pius Felix Augustus
Ætt Gordianska ættin
Tímabil Herkeisararnir,
Ár keisaranna sex

Snemma á árinu 238 gerðu íbúar skattlandsins Africu uppreisn gegn Maximinusi Thrax, keisara, og hylltu feðgana Gordianus 1. og Gordianus 2. sem keisara. Öldungaráðið í Róm viðurkenndi feðgana sem keisara en uppreisnin var engu að síður kveðin niður eftir nokkrar vikur. Öldungaráðið bjóst í kjölfarið ekki við neinni miskunn frá Maximinusi Thrax, sem var þá á leiðinni til Rómar, og skipuðu tvo menn úr sínum röðum sem keisara, þá Pupienus og Balbinus, til þess að undirbúa vörn gegn Maximinusi. Almenningur í Róm var ekki ánægður með valið á keisurunum tveimur og krafðist þess að fá keisara úr Gordiönsku ættinni. Keisararnir sendu því eftir Gordianusi 3., sem þá var 13 ára gamall, og útnefndu hann undirkeisara (caesar). Maximinus Thrax var myrtur af eigin hermönnum áður en hann komst til Rómar og stuttu síðar voru Pupienus og Balbinus myrtir af lífvarðasveitinni í Róm. Í kjölfarið var Gordianus 3. hylltur sem keisari.

Vegna þess hve ungur Gordianus var þegar hann tók við keisaratitlinum var stjórn ríkisins að miklu leyti í höndum Timesitheusar, yfirmanni lífvarðasveitarinnar. Tilraun til valdaráns átti sér stað í Karþagó á árinu 240 þegar maður að nafni Sabinianus, landstjóri í Africu, var lýstur keisari. Fljótlega var þessi uppreisn þó kveðin niður af landstjóranum í Mauretaniu. Árið 241 þurfti Gordianus að grípa til hernaðaraðgerða gegn Gotum sem höfðu ráðist inn í Rómaveldi við Dóná. Gotarnir voru reknir aftur norður yfir Dóná, en þá þurfti keisarinn að bregðast við mun alvarlegri ógn frá Persíu. Sassanídar höfðu þá ráðist inn í Rómaveldi og Gordianus mætti þeim með herafla sinn árið 243. Upphaflega gekk Gordianusi vel að hrekja Sassanídana til baka en þá varð Timesitheus veikur og lést. Gordianus skipaði þá Philippus araba sem yfirmann lífvarðasveitarinnar en án aðstoðar Timesitheusar virðist Gordianus hafa misst stjórn á hernaðaraðgerðunum og Philippus gróf undan trausti hans á meðal hermannanna. Gordianus lést svo árið 244 en ekki er ljóst hverjar kringumstæðurnar voru. Heimildir segja ýmist að hann hafi fallið í bardaga eða að hann hafi verið drepinn af eigin hermönnum. Philippus var svo hylltur sem keisari að Gordianusi látnum.

Heimildir

breyta
  • Meckler, Michael L., „Gordian III (238-244 A.D.) Geymt 27 maí 2007 í Wayback Machine.“ De Imperatoribus Romanis (2001).
  • Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).


Fyrirrennari:
Pupienus og Balbinus
Rómarkeisari
(238 – 244)
Eftirmaður:
Philippus arabi