Maximinus Thrax
Gaius Julius Verus Maximinus (um 173 – 238), þekktur sem Maximinus Thrax eða Maximinus 1., var Rómverskur keisari frá 235 til 238. Viðurnefnið thrax vísar til þess að hann var frá Þrakíu (eða nágrenni). Maximinus var fyrstur af hinum svokölluðu herkeisurum og með valdatöku hans er álitið að krepputímabil 3. aldarinnar hafi hafist í Rómaveldi.
Maximinus Thrax | |
Rómverskur keisari | |
Valdatími | 235 – 238 |
---|---|
Fæddur: |
um 173 |
Fæðingarstaður | Þrakía eða Moesia |
Dáinn: |
Apríl 238 |
Dánarstaður | Aquileia |
Forveri | Alexander Severus |
Eftirmaður | Pupienus og Balbinus |
Maki/makar | Caecilia Paulina |
Börn | Gaius Julius Verus Maximus |
Fæðingarnafn | Gaius Julius Verus Maximinus |
Tímabil | Herkeisararnir, Ár keisaranna sex |
Maximinus Thrax var hermaður af lágri stétt, hann var ómenntaður og sumar heimildir segja að hann hafi verið ólæs. Maximinus varð keisari árið 235, eftir að Alexander Severus hafði verið myrtur af hermönnum sínum. Severus hafði orðið óvinsæll eftir að hafa samið um frið við Germani við landamæri ríkisins við Rín. Maximinus gerði það að fyrsta verki sínu sem keisari að ráðast gegn Germönunum handan Rínar. Tvö samsæri um að drepa Maximinus áttu sér stað strax á árinu 235 en upp um þau komst og keisarinn hefndi grimmilega fyrir.
Maximinus eyddi öllum sínum kröftum í hernað á valdatíma sínum og heimsótti aldrei Rómaborg. Eftir herferðina við Rín hélt hann til Dónár og eyddi næstu tveimur árum í hernað gegn Daciumönnum og Sarmatium. Þessar hernaðaraðgerðir voru mjög kostnaðarsamar og auðmenn snerust fljótlega gegn honum vegna fjárkúganna sem hann beitti. Árið 238 var gerð uppreisn í Afríku gegn Maximinusi og tveir menn lýstir keisarar, Gordianus 1. og sonur hans, Gordianus 2.. Maximinus hugðist þá fara til Rómar til að styrkja stöðu sína og hélt af stað með herafla. Uppreisnin stóð hins vegar ekki lengi og Gordianus 1. og Gordianus 2. voru fallnir innan nokkurra vikna. Öldungaráðið í Róm tók þá til sinna ráða og skipaði öldungaráðsmennina Pupienus og Balbinus sem keisara. Maximinus hélt áfram áleiðis til höfuðborgarinnar en þegar hann kom til borgarinnar Aquileia, á Norður-Ítalíu, voru hermenn hans þreyttir og hungraðir. Keisarinn hugðist því fara inn í borgina til að ná í vistir en borgarbúar lokuðu hliðum borgarinnar og neituðu að hleypa honum inn. Maximinus hóf þá umsátur um borgina en eftir um það bil mánuð höfðu hermenn hans fengið nóg og drápu Maximinus, í apríl 238.
Heimildir
breyta- Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).
- Meckler, Michael L., „Maximinus Thrax (235-238 A.D.) Geymt 9 júní 2019 í Wayback Machine.“ De Imperatoribus Romanis (1997).
Fyrirrennari: Alexander Severus |
|
Eftirmaður: Pupienus og Balbinus |