Glitfaxaslysið

flugslys í Faxaflóa árið 1951

Glitfaxaslysið var flugslys sem varð 31. janúar 1951, þegar Dakota-flugvél Flugfélags Íslands, Glitfaxi TF-ISG, hrapaði í Faxaflóa í aðflugi að Reykjavíkurflugvelli. Með flugvélinni voru 17 farþegar og þriggja manna áhöfn. Allir fórust og er þetta eitt mannskæðasta flugslys Íslandssögunnar.

Glitfaxi var í áætlunarflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur en þurfti að hætta við lendingu vegna hríðarbyls og flaug þá hring út á Faxaflóa. Þegar flugstjórinn ákvað í samráði við flugturn að gera aðra tilraun til lendingar rofnaði allt samband við flugvélina í aðflugi og varð fljótt ljóst að hún hefði farist. Leitarflokkar fóru strax af stað og gengu fjörur en jafnframt var leitað á landi. Daginn eftir fannst brak úr vélinni á reki úti fyrir Vatnsleysuströnd en flakið hefur aldrei fundist.

Með flugvélinni fórust tvær konur, önnur þeirra flugfreyja vélarinnar, og 18 karlmenn, þar af einn drengur á fyrsta ári. Um fimmtíu börn og ungmenni misstu feður sína í slysinu. Meira en helmingur farþeganna var frá Vestmannaeyjum.

Við hlið Fossvogskirkju er minnismerkið Glitfaxi eftir Einar Jónsson myndhöggvara og var það reist til minningar um slysið og jafnframt alla þá sem farist hafa í flugslysum.

Heimildir breyta

  • „Glitfaxa saknað með 20 manns“. Morgunblaðið, 1. febrúar 1951.
  • „Glitfaxi hefur aldrei fundist“. Morgunblaðið, 31. janúar 2011.