Glasgow var hús sem stóð við Vesturgötu (5A). Það var stærsta hús á Íslandi þegar kaupmaðurinn P.L. Henderson lét byggja húsið árið 1862 og líka þegar það brann til kaldra kola, 18. apríl 1903. Þrjátíu manns bjuggu í húsinu þegar eldurinn kom upp, og bjargaðist það allt óskaddað út. Enska konsúlatið var til húsa í Glasgow og sjö smiðir höfðu þar verkstæði. Vindaverksmiðja var í húsinu og þar kom eldurinn upp. Bærinn Vigfúsarkot, sem stóð vestan, brann einnig. Nú stendur þar elliheimili.

P.L. Henderson, sem hafði keypt Höltersbæjarlóð, fékk leyfi til að reisa stórhýsi á lóðinni. Þetta var Glasgow-verslunin, eign firmans Henderson, Anderson & Co og var J. Jonassen verslunarstjóri. Glasgow-verslunin varð gjaldþrota árið 1862 og var allur búðarvarningur seldur á uppboði. Egill Egilsson kaupmaður eignaðist Glasgow árið 1872. Í húsinu var stór salur, sem rúmaði 200 manns í sæti og voru þar haldnar samkomur.

Þar starfaði sjómannaklúbburinn þar sem oft voru haldnir fyrirlestrar um ýmis efni til fróðleiks almenningi. Ennfremur var salurinn notaður fyrir fundarhöld og sjónleiki. Þar stóð Þorlákur Ó. Johnson fyrir fyrstu málverkasýningunni á Íslandi árið 1879 og sýndi þar eftirprentanir af myndum eftir erlenda málara, en aldamótaárið var þar fyrsta málverkasýning íslensks málara: Þórarins B. Þorlákssonar.

Síðar var húsinu breytt og mun herbergjum hafa verið fjölgað. Í brunabótavirðingu frá 1883 eru þar talin 18 herbergi og þrjú eldhús auk sölubúðar og 14 árum síðar voru herbergin orðin 40 samtals. Einar Benediktsson skáld keypti eignina 1896 og tveim árum síðar lét hann reisa hús á norðausturhluta lóðarinnar (Vesturgata 5). Það stendur enn á horni Vesturgötu og Aðalstrætis.

Tenglar

breyta
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.