Glæsibær (verslunarmiðstöð)

Verslunarkjarni í Reykjavík

Glæsibær er verslunarmiðstöð við Álfheima 74 í Reykjavík. Glæsibær var tekinn í notkun í desember árið 1970 og var á þeim tíma stærsta verslunarmiðstöð á Íslandi eða 8300 fermetrar.[1]

Kaupmennirnir Sigurliði Kristjánsson og Valdimar Þórðarson byggðu Glæsibæ en þeir voru þekktir undir nöfnunum Silli og Valdi sem jafnframt var heiti á matvöruverslunum í þeirra eigu. Matvöruverslun Silla og Valda í Glæsibæ þótti afar glæsileg en hún var þúsund fermetrar[1] og þar sáust ýmsar nýjungar sem ekki höfðu sést áður á Íslandi, til dæmis innkaupavagnar með barnasætum auk þess sem vöruúrval var mikið.[2] Matvöruverslunin í Glæsibæ var rekin undir merkjum Silla til ársins 1974 en þá tók Sláturfélag Suðurlands við rekstri hennar. Síðar hafa matvöruverslanir undir merkjum 10-11 og Iceland verið starfsræktar í Glæsibæ.

Fjöldi annarra verslana hafa verið í Glæsibæ og ein þeirra, Snyrtivöruverslunin Glæsibæ er eina verslunin sem starfrækt hefur verið í verslunarmiðstöðinni samfellt frá upphafi.[3]

Árið 2002 voru gerðar gagngerar endurbætur á Glæsibæ og verslunarmiðstöðin stækkuð til muna, m.a. með viðbyggingu sem t.d. hýsir nú læknastofur og líkamsræktarstöð auk annarra fyrirtækja.[3] Árið 2006 tók Heilsugæslustöðin í Glæsibæ til starfa en hún þjónar íbúum nærliggjandi hverfa.[4] Árið 2018 var opnuð stór Nexus-verslun í Glæsibæ.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 „9000 viðskiptavinir á einum degi þegar mest er“, Frjáls verslun, 31. árg. 1971-1972, 3. tbl.
  2. „Þjóðminjasafn.is, „Vísir að verslunarmiðstöðvum í Reykjavík“ (skoðað 3. ágúst 2019)
  3. 3,0 3,1 „Glæsibær glæsilegur að nýju“, Morgunblaðið, 14. desember 2002 (skoðað 3. ágúst 2019)
  4. Heilsugæslan.is, „Opnun heilsugæslunnar í Glæsibæ“ (skoðað 3. ágúst 2019)