Georg Stiernhielm – áður Göran Olofsson – (7. ágúst 159822. apríl 1672), var sænskur, fjölfræðingur, skáld og þjóðminjavörður 1648–1651. Hann hefur verið kallaður „faðir sænskrar ljóðlistar“.

Georg Stiernhielm, mynd frá 1663 eftir David Klöcker Ehrenstrahl.

Æviágrip breyta

Stiernhielm fæddist 1598 í Dölunum í Svíþjóð, þar sem faðir hans Olof Markvardsson starfaði. Hann stundaði fyrst nám í skólanum í Västerås en hlaut framhaldsmenntun í Uppsalaháskóla.

Árið 1631 var Stiernhielm aðlaður og breytti hann þá nafni sínu. Sem embættismaður var hann meðal annars þjóðminjavörður og frá 1667 stjórnarmaður í hinu nýstofnaða fornfræðaráði (Antikvitetskollegium). Hann dó í Stokkhólmi 1672.

Eins og algengt var á þeirri tíð fékkst Stiernhielm við margar fræðigreinar, stærðfræði, náttúrufræði, heimspeki, lögfræði, málfræði og textafræði, auk skáldskaparins. Hann samdi 50–60 ritverk og hefur um helmingur þeirra varðveist. Ritsafn hans kom út 1975–1978.

Sem lögfræðingur kynnti hann sér gömlu sænsku lögbækurnar og gaf út Vestgautalögin fornu. Hann var sá fyrsti sem tók saman skýringar við sænsku lögbækurnar. Hann fékkst einnig við sagnfræði og málfræði og notaði til dæmis handritið Ormsbók við orðabókarvinnu.

Hans verður lengst minnst fyrir framlag sitt til sænskrar tungu og bókmennta. Honum tókst að vekja áhuga og meiri virðingu fyrir móðurmálinu, sem þá var frekar lítils metið meðal menntamanna. Áður hafði sænsk ljóðlist mest verið trúarleg en Stiernhielm fór inn á nýjar brautir og vandaði meira til verka en fyrirrennarar hans, án þess þó að geta talist mikill skáldsnillingur. Eitt þekktasta verk hans er kvæðið Hercules undir sexliðahætti og er efnið sótt til grískrar fornaldar.

Kona hans var Cecilia Burea, bróðurdóttir Johannesar Bureus.

Tenglar breyta

Heimildir breyta

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Georg Stiernhielm“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 15. júní 2010.
  • Georg Stiernhielm: Samlade skrifter. Del 1, Poetiska skrifter. Band 2, Kommentar, Svenska Vitterhetssamfundet, Stockholm 1975 og 1978.