Georgía Björnsson

Georgía Björnsson (18. janúar 1884 – 18. september 1958), fædd undir nafninu Georgia Hoff-Hansen, var eiginkona Sveins Björnssonar og þar með fyrsta forsetafrú Íslands.

Georgía fæddist í Danmörku til danskra foreldra. Faðir hennar var Hans Henrik Emil Hoff-Hansen, lyfjasali og jústisráð í Hobro á Jótlandi, en móðir hennar var Anna Catherine Hansen, sem rakti ættir sínar til jótlenskra presta og stórbænda. Georgía kynntist Sveini þegar hún dvaldi hjá systur sinni á Íslandi veturinn 1901-1902 og hitti hann aftur í Kaupmannahöfn nokkrum árum síðar. Georgía og Sveinn gengu í hjónaband árið 1908 og fluttu stuttu síðar til Íslands.[1] Þau eignuðust sex börn.

Georgía varð forsetafrú sextug að aldri þegar Sveinn var kjörinn fyrsti forseti nýja íslenska lýðveldisins þann 17. júní árið 1944. Áður hafði hún verið sendiherrafrú í Danmörku þegar Sveinn var sendiherra þar og síðar ríkisstjórafrú á Íslandi þau þrjú ár sem Sveinn gegndi því embætti. Hún var sæmd stórkrossi Hinnar íslensku fálkaorðu árið 1946.[2]

Það kom að miklu leyti í hlut Georgíu að móta heimilisbraginn í embættisbústað forseta á Bessastöðum á upphafsárum embættisins. Hún þótti útsjónarsöm við val og uppröðun á húsgögnum og nýtti ýmis sambönd við áhrifafólk í sendiráði Íslands í London og í viðskiptalífinu til að annast innkaup fyrir forsetaembættið í útlöndum, m.a. á matvælum sem erfitt var að nálgast hér á landi á þessum tíma.[3]

Tilvísanir breyta

  1. „Georgía Björnsson“. mbl.is. 18. janúar 2016. Sótt 29. apríl 2019.
  2. „Þrettán karlar og konur sæmd heiðursmerkjum hinnar íslenzku fálkaorðu“. Alþýðublaðið. 4. janúar 1946. Sótt 29. apríl 2019.
  3. Stefanía Haraldsdóttir, „Bankað uppá að Bessastöðum“, BA-ritgerð í sagnfræði, bls. 12-13 (2014).