Stefna
Stefna er skjal sem birt er fyrir móttakanda (oftast stefnda í dómsmáli) þar sem skorað er á hann að mæta fyrir dóm.
Uppruni stefnu
breytaStefnur geta verið sundurgreindar eftir uppruna, þ.e. réttarstefnu og utanréttarstefnu. Réttarstefna er stefna sem dómstóll gefur út og er krafa í tilteknum tegundum mála, svo sem lögbannsmálum. Þær eru taldar vera gagnlegar að því leyti að dómarinn sjálfur mun koma með ábendingar um möguleg atriði sem gætu varðað frávísun málsins að óbreyttu.
Utanréttarstefnur eru svo stefnur sem stefnandi sjálfur gefur út og fylgir henni áskorun um að mæta á reglulegt dómþing viðkomandi dómstóls sem tileinkað er þingfestingum slíkra mála.
Tilefni stefnu
breytaStefnur geta einnig verið sundurliðaðar eftir tilefni. Yfirheitið stefna er oftast notað í þeim tilvikum þegar verið er að hefja dómsmálið.
Helstu undirflokkar þeirra sem eiga sér stað eftir upphaf máls eru:
- Áfrýjunarstefna er stefna gefin út á æðra dómstigi til að krefjast (efnislegrar) endurskoðunar á dómi.
- Framhaldsstefna þegar þegar aðili máls, oftast stefnandi, vill bæta við dómkröfum inn í mál eftir þingfestingu þess eða koma með viðbætur á þær sem fyrir eru.
- Gagnstefna þegar hinn stefndi gerir eigin dómkröfur gagnvart stefnanda. Þær stefnur eru að jafnaði afhentar fulltrúa stefnanda við rekstur málsins.
- Meðalgöngustefna þegar þriðji aðili óskar meðalgönguaðildar að máli.
- Réttargæslustefna þegar aðili máls stefnir þriðja aðila til réttargæsluaðildar í sama máli.
- Sakaukastefna þegar aðili máls stefnir þriðja aðila inn í málið eftir þingfestingu þess.
- Vitnastefna er gefin út til vitnis í dómsmáli þegar krafist er þess að það mæti í skýrslugjöf.