Skyndihjálp

(Endurbeint frá Fyrsta hjálp)

Skyndihjálp (eða hjálp í viðlögum, fyrsta hjálp) er hugtak haft um grunnaðhlynningu og aðstoð vegna veikinda eða slysa. Það eru gjarnan leikmenn, þ.e. ekki sérmenntaðir heilbrigðisstarfsmenn, sem veita fyrstu hjálp og hlúa að sjúkling þar til sjúkraliðar eða önnur sérþjálfuð hjálp berst. Smávægileg veikindi og slys þarfnast stundum eingöngu þeirrar meðferðar sem felst í skyndihjálp, til dæmis smávægilegur skurður eða lítið brunasár. Slík hjálp felst að jafnaði í einföldum aðferðum, í sumum tilfellum getur hún skipt sköpum og jafnvel bjargað mannslífum.

Alþjóðlegt skyndihjálparmerki.

Markmið

breyta

Markmið skyndihjálpar má draga í þrjá dilka:

  • Að varðveita líf — þar með líf þess sem veitir aðstoð
  • Að koma í veg fyrir frekari skaða — til dæmis með því að tryggja öryggi á vettvang, hreyfa ekki sjúkling nema nauðsyn krefji, stöðva blæðingu o.s.frv.
  • Að bæta ástand sjúklings og flýta bata — til dæmis með því að kæla brunasár eða spelka beinbrot

Grundvallaratriði

breyta
 
Hér sést hvernig tungan getur lokað öndunarveg, með því að sveigja höfuð afturábak kemst loft greiðar um öndunarveginn

Nokkur atriði eru talin skipta megin máli í skyndihjálp. Fyrir það fyrsta þurfa þeir sem veita aðstoð að huga að eigin öryggi með því að tryggja öryggi á vettvang, verja sig gegn smiti eftir bestu getu o.s.frv. Því næst er það grunnskoðun á meðvitundarlausum sjúkling sem gjarnan er nefnd ABC sem stendur fyrir airway, breathing og circulation á ensku: Fyrst er athugað hvort öndunarvegur sé opinn og engir aðskotahlutir komi í veg fyrir öndun; því næst er athugað hvort sjúklingur geti andað að sjálfsdáðum og að lokum hvort hann hafi púls. Ef sjúklingur andar ekki er endurlífgun hafin með hjartahnoði.

Sumar stofnanir sem kenna skyndihjálp bæta við fjórða skrefinu, ABCD. Þá stendur D ýmist fyrir deadly bleeding eða defibrillation, þ.e. alvarleg blæðing eða hjartastilling með stuðtæki, en þetta er gjarnan talin hluti af þriðja skrefinu. Ef menn hafa hlotið viðeigandi þjálfun geta menn gert ítarlegri líkamsskoðun og ef sjúklingur er meðvitaður tekið niður sjúkrasögu.

Varðveisla lífs

breyta

Til þess að varðveita líf einstaklings er mikilvægt að öndunarvegurinn sé opinn. Meðvitað fólk getur haldið eigin öndunarveg opnum en meðvitundarlausir einstaklingar geta þurft hjálp.

Ef meðvitundarlaus sjúklingur andar þegar komið er að honum er honum venjulega velt í læsta hliðarstöðu. Í þessari stöðu rennur tungan síður niður í kok (og lokar þannig öndunarveginum) auk þess er minni hætta á því að hann drukkni í eigin ælu.

Öndunarvegurinn getur einnig lokast ef aðskotahlutur festist í koki sem veldur þá köfnun. Þá er þrýst á kviðinn með sérstökum hætti, slegið á bakið eða hluturinn fjarlægður með höndunum. Þegar öndunarvegurinn hefur verið hreinsaður er athugað hvort sjúklingurinn andi. Ef hann andar ekki er endurlífgunaraðferðinni beitt, þ.e. andað fyrir sjúklingin með munn við munn aðferðinni og brjóstkassinn hnoðaður.

Að flýta bata

breyta

Sá sem hefur hlotið þjálfun í skyndihjálp getur flýtt fyrir bata og bætt ástand sjúklingsins með því að búa um sár eða spelka brotna útlimi. Með þessum hætti gæti sá sem veitir aðstoðina lokið meðferð á sjúklingnum eða bætt líðan hans þar til sérþjálfuð aðstoð berst.

Þjálfun

breyta

Margt í skyndihjálp er almenn skynsemi. Svo sem er líklegt að flestir geri sér grein fyrir mikilvægi þess að þrýsta á sár til þess að stöðva mikla blæðingu. Hins vegar er mikilvægt að verða sér út um kennslu í skyndihjálp til þess að geta veitt almennilega aðstoð. Þetta á sérstaklega við um alvarleg tilfelli þar sem menn gætu þurft að endurlífga sjúkling. Slíkar aðgerðir geta verið hættulegar og valdið meiri skaða ef þær eru ekki framkvæmdar rétt.

Þjálfun er gjarnan fólgin í því að fólk sækir námskeið hjá viðurkenndum aðila. Það þarf einnig að sækja sér reglulega endurmenntun þar sem aðferðir við til dæmis endurlífgun eru sífellt endurskoðaðar. Stofnanir eins og Rauði krossinn bjóða reglulega upp á kennslu í skyndihjálp. Þar eru eðlileg viðbrögð kennd, forgangsröðun, hvernig á að opna öndunarveg, búa um sár og endurlífga svo eitthvað sé nefnt. Sjúkraliðaskólar bjóða gjarnan upp á ítarlegri námskeið þar sem hægt er að læra á sérhæfðan búnað, svo sem súrefnisgrímur, hjartastuðtæki, spelkur og stuðningsbretti.

Sjá einnig

breyta