Frumutala
Frumutala er mæling á fjölda frumna í mjólk, mæld í þúsund frumum í millilítra. Þessar frumur eru aflóga júgurfrumur sem og hvít blóðkorn (þau eru helmingur frumna í mjólk úr heilbrigðu júgra). Frumutala getur verið ágætis mælikvarði á júgurheilbrigði því við júgurbólgu hækkar frumutalan gjarnan. Þá hækkar hún með hærri aldri gripsins og há er hún einnig í geldmjólk og broddmjólk.
Eðlileg frumutala?
breytaEðlileg frumutala er mjög misjöfn milli gripa. Þannig geta sumir gripir haldið sinni frumutölu undir 100 þúsund mörg mjaltaskeið í röð á meðan aðrir gripir hækka sig jafnt og þétt með aldrinum. Eðlilega er frumutalan í broddi og geldmjólk mjög há, því þá eru varnir júgurs styrktar vegna þess hve álagið er meira. Þá getur frumutala hækkað með gangmáli (útvötnunaráhrifa gætir allt gangmálið nema þegar kýrin beiðir (og mjólkar þá minna)) og með óvönduðum vinnubrögðum við mjaltir (svo sem tómmjaltir, skemmdir á slímhúð í spenum). Fyrst við júgurbólgu getur frumutalan hækkað svo milljónum skipti.
Með hækkandi frumutölu gerast eftirfarandi breytingar á mjólkinni:
- fituinnihald mjólkur minnkar
- fríar fitusýrur aukast
- kaseín minnkar
- mjólkursykurshlutfall lækkar
- natríum eykst
- klór eykst
- kalsíum minnkar
- lípasi eykst
Mæling
breytaTvær aðferðir eru algengastar við talningu á frumum í mjólk. Annars vegar er það skálaprófið (California mastitis test, CMT) og hins vegar mælir sem litar frumurnar með sérstöku litarefni. Skálaprófið getur bóndinn framkvæmt sjálfur, það er ódýrt og auðvelt er að nota það til að ákvarða mun milli ólíkra spena á sömu kúnni. Það er þó ekki mjög nákvæmt, heldur er hægt að ákvarða nokkurn veginn ± 100 þúsund frumur í hverju sýni. Frumuteljarinn er þó með nákvæmni upp á 1000 frumur í hverjum millilítra.
Gjarnan eru tekin mánaðarlega, eða jafnvel hálfsmánaðarlega sýni úr hverri kú og þau send til rannsóknar á rannsóknarstofu. Þá fást einnig upplýsingar um efnainnihald mjólkurinnar í hverri kú. Sýni eru tekin úr mjólkurtanki og þau greind. Þannig fæst verðlagsgrunnur mjólkurinnar sem greidd er til bóndans. Sé ekki passað upp á að hræra vel í tankinum fyrir sýnatöku getur frumutala orðið nokkuð há því fitan sest ofan á mjólkina og frumurnar fylgja henni. Það eru því færri frumur neðst í óhrærðri mjólk.
Ítarefni
breyta- Þættir sem hafa áhrif á frumutölu í mjólk íslenskra kúa Geymt 4 mars 2016 í Wayback Machine - grein eftir Eirík Jónsson, Ólaf Oddgeirsson og Jón Viðar Jónmundsson í Greinasafni landbúnaðarins
Heimildir
breyta- Alfsnes, Terje og Østerås, Olav (Gunnar Guðmundsson þýddi) (1997). Mjaltir og mjólkurgæði. Bændasamtök Íslands. ISBN 82-529-1432-2.
- Sveinn Guðmundsson (1996). Hraustar kýr. Sveinn Guðmundsson. ISBN 9979-60-238-4.
- Stendal, Mogens (faglig koordinator) (2003). Håndbog i kvæghold. Dansk Landbrugsrådgivning, Landbrugsforlaget. ISBN 87-7470-847-3.