Júgurbólga kallast bólga og sýking í mjólkurkirtlum spendýra. Hún er algeng í kúm, ám en fyrirfinnst einnig í hryssum. Sýklar valda oftast júgurbólgu en einnig getur erting á slímhúð spena og högg valdið henni. Júgurbólga er meðhöndluð með lyfjum í spena, vöðva, æð eða um munn.

Sé langvinn júgurbólga ekki meðhöndluð getur júgurhlutinn dottið af eins og gerist hér

Orsök breyta

Sýklar sem lifa í umhverfi spendýra valda júgurbólgunni nær alltaf. Þó koma önnur umhverfisáhrif s.s. spenastig (áverkar á spena), högg á júgur, kuldi, mjólkurþrýstingur og annað áreiti (rangar mjaltir svo sem tómmjaltir, sogsveiflur í mjaltavélum og fleira) til greina og magna bólguna upp eða koma henni af stað.

Bakteríur sem valda júgurbólgu breyta

Bakteríur sem valda júgurbólgu eru ýmist smitandi eða bakteríur sem lifa almennt í umhverfinu og geta valdið júgurbólgu. Algengasti sýkillinn sem veldur júgurbólgu á Íslandi er Staphylococcus aureus. Hann, ásamt Streptococcus agalactia og Streptococcus dysgalactia, eru svokallaðir smitandi júgurbólgusýklar. Til þeirra teljast einnig Kóagúlasa neikvæðir stafýlókokkar (stytt í CNS eða KNS). Þeir lifa á slímhúð manna og dýra og berast á milli með skítugum hlutum á borð við þvottaklúta, föt og hendur.

Umhverfisbakteríur á borð við saurgerla (Escherichia coli, Streptococcus uberis, Streptococcus faecalis og fleiri) valda einnig júgurbólgu berist þeir inn í spena og júgur. Þessar bakteríur lifa í þörmum og saur. Þeir berast milli einstaklinga á sama hátt og hinir smitandi.

Einkenni breyta

Júgurbólga skiptist í eftirfarandi flokka eftir einkennum:

  • Ofurbráð (perakutt)
  • Bráð (akutt)
  • Langvarandi (kronisk)
  • Sýnileg (klinisk)
  • Dulin (subklinisk)

Við ofurbráða, sýnilega júgurbólgu sýkist sjúklingurinn á fáum klukkustundum, fær hita og er almennt slappur. Frumutalan rýkur upp. Há frumutala getur bent til langvarandi júgurbólgu en með henni verða breytingar á júgri og mjólk yfir langan tíma. Júgur sem hefur haft langvarandi júgurbólgu í langan tíma hefur bólguþrimla og -hnúta auk þess sem kýrin eða ærin mjólkar minna. Dulin júgurbólga getur ýmist verið bráð eða langvarandi. Sé hún bráð getur hún gosið upp án þess að nokkuð finnist að við næstu mjaltir nema að frumutala hefur rokið upp. Þannig getur frumutalan rokkað upp og niður.

Við bráða júgurbólgu í ám heltist ærin á þeim afturfæti sem nær er bólgna júgrinu og líkamshiti hennar hækkar. Þannig mjólkar hún minna svo lömbin svelta. Júgrið stækkar og verður hart viðkomu. Í framhaldinu getur komið í það drep svo kirtillinn fellur allur af. Langvinn júgurbólga hefur mun ógreinilegri einkenni, þ.e. mjólkurmyndun minnkar og frumutala hækkar. Oftast eru lömb þessara áa lélegri en önnur.

Lækning og fyrirbyggjandi aðgerðir breyta

Júgurbólgu er hægt að meðhöndla með fúkkalyfum en í lífrænum landbúnaði er ýmsar vörur gerðar úr Aloe vera notaðar[1]. Eru þau bæði sett í vöðva og spena en í mörgum löndum hefur einungis dýralæknir leyfi til að meðhöndla með lyfjum í æð. Þeim mun fyrr sem júgurbólga uppgötvast og er meðhöndluð þeim mun meiri líkur á góðum bata. Helstu fyrirbyggjandi þættir eru:

  • Þurr, hrein, trekklaus og vel loftræst gripahús
  • Mjúk gólfefni þar sem gripirnir liggja, koma í veg fyrir spenastig
  • Reglulegar mjaltir, tæma sýkt júgur reglulega (jafnvel oft á dag) því tæming sýktra kirtla er besta meðhöndlunin
  • Koma í veg fyrir tómmjaltir og sogflökt í mjaltavélum
  • Viðhalda góðri mjaltaröð, þ.e. mjólka sýktar kýr seinastar

Neðanmálsgreinar breyta

  1. „biobu.is - Lífræn mjólk“. Sótt 10. desember 2007.

Tengill breyta