Fornleifarannsóknir á Kirkjubæjarklaustri

Fornleifarannsóknir á Kirkjubæjarklaustri stóðu frá 1995-2006 og var meginmarkmið með rannsóknunum að staðsetja klaustrið á Kirkjubæ. Rannsóknirnar voru styrktar af Kristnihátíðarsjóði og var það Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur hjá Fornleifafræðistofunni sem stjórnaði rannsóknunum.


Klaustrið á Kirkjubæ breyta

Í íslenskum Annálum kemur fram að árið 1186 hafi Þorlákur helgi Þórhallsson, biskup í Skálholti, stofnað nunnuklaustur á Kirkjubæ á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Þremur árum eftir stofnun klaustursins var Halldóra Eyjólfsdóttir vígð sem fyrsta abbadísin. Klaustrið starfaði til 1554 en var þá lagt af við Skiðaskiptin í Skálholtsbiskupsdæmi. Klaustrið starfaði eftir reglu heilags Benedikts og gengu klaustursystur sjö sinnum til tíða á sólarhring. Kirkjubæjarklaustur, líkt og önnur miðaldaklaustur, var gífurlega ríkt af jörðum og hlunnindum. Í Máldaga frá 1397 eru eignir klaustursins skráðar. Þær samanstóðu af 25 jörðum og ítökum. Lítið er minnst á sjálfar klausturbyggingarnar að undanskildum 20 glergluggum sem munu hafa verið einstaklega verðmættir. Þónokkrar systranna á Kirkjubæ eru þekktar úr rituðum heimildum. Þekktust mun þó vera systir Kristín eða Katrín. Í þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá systur Kristínu eða Katrínu sem var brennd á báli árið 1343 og dysjuð upp á Systrastapa fyrir að hafa formælt páfa, selt sig djöflinum og lagst með mörgum mönnum. Við rannsóknirnar 1995-2006 voru þústirnar á Systrastapa kannaðar nánar en þar fundust engin merki um að manneskja hefði verið brennd eða dysjuð. [1]

Fornleifarannsóknir á Kirkjubæjarklaustri breyta

Frumrannsóknir breyta

Í upphafi árs 1995 samþykkti hreppsnefnd Skaftárshrepps að sækja um skyrk til að hefja rannsóknir á rústum nunnuklausturs á Kirkjubæ. Rannsóknirnar hófust síðar um haustið og var meginmarkmið þeirra að staðsetja klaustrið og kanna byggingarlag þess. Jarðsjármælingum var beitt til að kanna þykkt, dreifingu og gerð mannvistarlaga og einnig voru grafnar nokkrar prufuholur. Niðurstöður úr þessum könnunum sýndu að staðsetning klaustursins var ekki á þeim stað sem í dag eru kallaðir Klausturhólar heldur var það undir gamla bæjarhóli Kirkjubæjar. Eiginlegur uppgröftur á Kirkjubæjarklaustri hófst síðan árið 2002. [2]

Uppgröftur breyta

Árin 2002 og 2003 var grafið u.þ.b. 100m2 stórt svæði þar sem leifar þriggja bygginga fundust. Yngri byggingarnar tvær voru að mestu rannsakaðar 2002 og 2003 og sýndu niðurstöður að byggingarnar þrjár höfðu ekki staðið á sama tíma heldur tóku þær við af hver annarri. Yngsta byggingin var langhús sem stóð frá lokum 16. aldar fram á miðja 17. öld en eldri bygging undir henni var að öllum líkindum reist um eða fyrir miðja 16. öld.[3] Við uppgröft 2004 og 2005 var áhersla lögð á að rannsaka þriðju og elstu bygginguna af þeim þremur sem áður höfðu fundist. Nánast fullvíst er að sú bygging hafi verið hluti 15. aldar klaustursins. Rannsakaði flötur byggingarinnar var um 130m2 og er það aðeins hluti af mun stærri byggingu. Byggingin skiptist í fimm rými sem aðskildust með bæði torf- og steinveggjum. [4] Sumarið 2006 fór fram síðasta uppgraftartímabil á Kirkjubæjarklaustri. Þar var eldra byggingarstig hlutans af 15. aldar klaustrinu rannsakað og með því var hægt að sýna fram á breytingar 15. aldar klaustursins milli eldri og yngri bygginarstiga. Eitt rými byggingarinnar var skilgreint sem vefstofa en þar fundust timburlurkar sem túlkaðir voru sem leifar vefstaðar en einnig funndust þar nokkrir kljásteinar sem styðja þá tilgátu[5]. Auk þessa voru illa varðveittar minjar eldri bygginga sem liggja norðan við 15. aldar klaustrið rannsakaðar og sýndu kolefnisaldursgreiningar að þær eru frá 14. öld. [6]

Niðurstöður breyta

Við lok rannsóknanna hafði aðeins lítill hluti hins eiginlega klausturs verið rannsakaður og því er ljóst að miklar upplýsingar eru enn faldar djúpt ofan í jörðinni á Kirkjubæjarklaustri. Þó fengust ýmsar upplýsingar úr rannsóknunum. Hægt var að greina gerð og form þess sem komið var fram og sýndu niðurstöður m.a. að á síðmiðöldum var klaustrið byggt umhverfis klausturgarð, eins og tíðkaðist um erlend klaustur. Eins var ljóst út frá þeim gripum sem fundust að handiðnaður hafði skipað stóran sess í lífi klaustursystranna.

Hannyrði breyta

Hannyrði systranna á Kirkjubæjarklaustri var vel þekkt og í miðaldarritum er m.a. getið þess er Vilchin skálholtsbiskup pantaði frá Kirkjubæjarklaustri hin glæsilegustu tjöld fyrir Skálholtsstað. Við rannsóknir á Klaustrinu fannst mikið magn hannyrðagripa sem styðja undir þær hugmyndir að Kirkjubæjarklaustur hafi verið eins konar hannyrðasetur. Þar fundust bæði kljásteinar og snældusnúðar en einnig prjónar og heklunál. Handverk og bænahald systranna voru samtvinnaðar athafnir. Konur sóttu í klaustur til að lofa drottinn sinn með eign handverki. Handverkið var sjálfstætt framlag til trúar og kirkju og því hluti af helgisiðum. [7]


Tilvísanir breyta

  1. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson (2010)
  2. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson (2010)
  3. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson (2010)
  4. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson (2010)
  5. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson, Sandra Sif Einarsdóttir (2004): 11-12
  6. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson (2010)
  7. Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson

Heimildir breyta

  • Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson (2010). Sagan í Sandinum Klaustrið á Kirkjubæ (sýningaskrá). Kirkjubæjarstofa.
  • Kristján Mímisson, Bjarni F. Einarsson, Sandra Sif Einarsdóttir (2004). Rannsókn á rústum nunnuklaustursins á Kirkjubæ. Skýrsla III. Rannsóknaruppgröftur 2004. Fornleifafræðistofan, unnið í samvinnu við Kirkjubæjarstofu og Háskóla Íslands.
  • „Samantekt Kristjáns Mímissonar og Bjarna F. Einarssonar verkefnisstjóra rannsóknarinnar í Kirkjubæjarklaustri í sýningaskrá Endurfunda“. Sótt 11. mars 2014.

Tenglar breyta

Fornleifafræðistofan Geymt 2014-05-22 í Wayback Machine