Halldóra Eyjólfsdóttir

Halldóra Eyjólfsdóttir (d. 1210) var fyrsta abbadís í Kirkjubæjarklaustri. Var hún vigð 1189 en Þorlákur biskup Þórhallsson hafði stofnað nunnuklaustrið árið 1186. Ætt hennar er óþekkt, nema hvað vitað er að hún átti bróður sem hét Sokki.

Árið 1195 var Halldóra abbadís á Alþingi og bauð þá Guðmundi Arasyni, síðar Hólabiskupi, að koma í klaustrið og stýra því með sér og féllst hann á þetta. Halldóra sendi menn norður í Svarfaðardal um haustið til að sækja Guðmund og föggur hans og hafði hann bæði fengið leyfi hjá Brandi Sæmundssyni Hólabiskupi til að flytjast úr biskupsdæminu og hjá Páli Jónssyni Skálholtsbiskupi til að flytjast í hans biskupsdæmi. En þegar Svarfdælir vissu að þeir væru að missa Guðmund frá sér héldu þeir fund og fóru svo til Brands biskups og fengu hann til að afturkalla brottfararleyfið og báðu jafnframt Guðmund að vera kyrran nyrðra, og varð það úr.

Halldóra dó árið 1210. Eftir lát hennar er ekkert vitað um klausturhald á Kirkjubæ í meira en áttatíu ár, eða þar til Agatha Helgadóttir var vígð abbadís 1293. Í klaustrinu hafa þó án efa verið einhverjar nunnur, hvort sem þar voru einhverjar abbadísir sem engar heimildir voru til um eða eingöngu príorinnur, sem ekkert er vitað um heldur, en klausturhaldarar stýrðu eignum klaustursins og eru þar þekktastir feðgarnir Digur-Helgi Þorsteinsson (d. 1235) og síðan sonur hans, Ögmundur Helgason.

Heimildir breyta

  • „Kirkjubæjarklaustur. Sunnudagsblað Tímans, 16. júlí 1967“.
  • „Kirkjubæjarklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.