Fjarskiptastöð bandaríska sjóhersins við Grindavík
Fjarskiptastöð bandaríska sjóhersins við Grindavík (e. Naval Transmitter Facility Grindavik, NRTF Grindavik) er fjarskiptastöð rétt vestan við Grindavík á afmörkuðu varnarsvæði sem rekin er af bandaríska sjóhernum. Fjarskiptastöðin samanstendur af tveimur útvarpsmöstrum fyrir langbylgjusendingar. Möstrin eru 243,8 og 182,9 metra há en hærra mastrið er næsthæsta mannvirki á Íslandi á eftir langbylgjumastrinu á Gufuskálum. Fjarkiptastöðin sendir út undir kallmerkinu TFK á bylgjulengdinni 37,5 kHz. Sú tíðni er notuð til samskipta við kafbáta og er það megintilgangur stöðvarinnar sem sögð er afar mikilvægur hlekkur í fjarskiptakerfi bandaríska sjóhersins.[1]
Varnarsvæðið við Grindavík er eina svæðið á Íslandi sem Bandaríkin hafa enn bein afnot af skv. ákvæðum varnarsamnings ríkjanna frá 1951 en öðrum varnarsvæðum á landinu var skilað til íslenskra stjórnvalda eftir brotthvarf Varnarliðsins 2006.[2]
Í fimmta eldgosinu í hrinu eldgosa við Sundhnúksgíga 2023-2024 rann hraun inn á hið skilgreinda varnarsvæði og eyðilagði nokkur stög á lægra langbylgjumastrinu. Gerðir hafa verið varnargarðar innan svæðisins til að verja mannvirki þar fyrir mögulegu hraunrennsli ef goshrinan heldur áfram.[3]
Vísanir
breyta- ↑ „NCTS HR Detachment Grindavik Iceland“. Naval Information Forces. Sótt 21. ágúst 2024.
- ↑ „Frumvarp til varnarmálalaga. Lagt fyrir Alþingi á 135. löggjafarþingi 2007–2008“.
- ↑ Georg Gylfason (29.5.2024). „Hraunið gæti flætt yfir fjarskiptastöð Bandaríkjaflota“. Heimildin.