Fjórðungsdómur
Fjórðungsdómur var dómstóll á Alþingi frá 965 til loka þjóðveldisaldar og störfuðu fjórir slíkir, einn fyrir hvern landsfjórðung, og var hver þeirra æðsti dómstóll í málum fjórðungsins. Þangað komu mál sem dæmd höfðu verið á vorþingum, sem voru lægsta dómsstigið. Rétt eftir árið 1000 var svo stofnaður fimmtardómur, sem var yfirréttur sem náði til landsins alls og mátti áfrýja þangað málum sem dæmd höfðu verið í fjórðungsdómi.
Líklegt er talið að hver goði hafi tilnefnt einn mann í hvern fjórðungsdóm þannig að þar hafi setið 36 menn og urðu allir að vera sammála um niðurstöðu. Í fimmtardómi réð aftur á móti einfaldur meirihluti.
Um fimmtardóm segir Sigurður Nordal:
„Með setningu fimmtardóms var þróun hinnar íslenzku dómskipunar lokið, og hún hafði náð fullkomnun, sem einstæð var á þeim tímum. Mál gátu gengið í gegnum þrjú dómstig, vorþingsdóm, fórðungsdóm og fimmtardóm, og unnt var að fá hvert mál útkljáð með dómi, þótt ekki fengist einróma niðurstaða. Það sýndi vaxandi traust almennings á lögum og rétti, að menn skyldu sætta sig við það, eftir reynslu þriggja aldarfjórðunga, að hlíta meiri hluta dómi. Skömmu eftir að fimmtardómur var settur voru hólmgöngur úr lögum numdar sem réttarúrskurður. ... Hann var hvolfsteinn hins forna þjóðskipulags.” [[Flokkur:þjóðveldisöld]