Finnagaldur [1] nefndi Þjóðviljinn á sínum tíma frelsisstríð Finna þegar Rússar réðust á þá fyrrnefndu í nóvember árið 1939 og Finnar gripu til vopna. Það stríð hefur verið nefnt Vetrarstríðið. Viðhorf Þjóðviljans, og orðið finnagaldur, sem haft var um baráttu Finna, olli miklum deilum á Íslandi þegar þessir atburðir gerðust. Í Alþýðublaðinu árið 1946 stendur:

Öllum er enn í fersku minni hver megna andúð og fyrirlitningu slíkt ofbeldi stórveldisins við hina litlu, frelsisunnandi nágrannaþjóð vakti um heim allan. En hitt er mönnum heldur ekki gleymt, hvernig kommúnistar sleiktu þá út um, hrakyrtu Finna fyrir að hafa ekki viljað selja Rússum land sitt og kölluðu það bara loddaraleik eða Finnagaldur, að taka svari smáþjóðarinnar, af því að það voru Rússar, sem á henni níddust. [2]

Aðdáun á meðal sósíalista á verkum Rússa var þó langt í frá almenn. Í Morgunblaðinu 1989 stóð að:

Kommúnistar höfðu á orði að hin hörðu viðbrögð pólitískra andstæðinga og almennings væru ofsóknir og töluðu um „Finnagaldur" í þessu sambandi. En það orð er dregið af fjölkynngi íbúa í Finnmörku og Lapplandl. Það var ekki hægt að ná samstöðu um hlutleysi í Vetrarstríðinu innan sósíalistaflokksins; flokkurinn klofnaði. Margir sögðu upp áskriftum sínum að málgagni flokksins, Þjóðviljanum. [3]

Í Lesbók Morgunblaðsins sagði svo frá þessum sama atburði í grein sem birtist árið 1984:

Í skjóli Hitlers réðust þeir [Rússar] tveimur mánuðum síðar, í desember 1939, á Finnland. Þar átti vissulega Davíð í höggi við Golíat. Finnar vörðust í fulla þrjá mánuði og hetjudáð þeirra var slík að þeir voru virtir svo að minnisstætt er. Hér heima var virðingin einlæg og almenn svo að kommar líktu henni við „hreinan finnagaldur". [4]

Orðið finnagaldur vísar til þeirra galdra sem Finnar voru þekktir fyrir í fornöld, sbr. hina íslensku sögn að finnvitka sem þýðir að fremja galdra á Lappavísu og þjóðtrúin íslenska á finnabrækur svo eitthvað sé nefnt. Áður var orðið oft nefnt í sömu andrá og moggalygi og rússagrýla, því sósíalistar tóku að tala um að moggamenn hefðu komið af stað finnagaldri. Orðið fékk því nýja merkingu um leið og það hafði verið notað um „samvinnuleysi“ Finna við Rússa, þar sem það var haft í deilunni sjálfri um það moldviðri sem af þessu spratt, og ádeilu Morgunblaðsins á alla sósíalista.

Orðið finnagaldur er enn notað en hefur fengið aðra merkingu og um leið er hún nokkuð á reiki. Oftast er orðið samt haft um einhverskonar deilur og uppþot þar sem menn tvístrast í afstöðu sinni. Eða þar sem upp þyrlast moldviðri skoðana, þar sem öðrum finnst hinn aðilinn hafa miklu verri málstað að verja.

Tilvísanir breyta

  1. „Orðabók Háskólans“. Afrit af upprunalegu geymt þann 15. september 2015. Sótt 4. febrúar 2009.
  2. Alþýðublaðið 1946
  3. Morgunblaðið 1989
  4. Lesbók Morgunblaðsins 1984
   Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.