Félag með sérstakan tilgang

Félag með sérstakan tilgang (enska: special-purpose vehicle, SPV eða special-purpose entity, SPE) er oftast hlutafélag af einhverju tagi sem stofnað er utan um sértæka eða tímabundna starfsemi. Slík félög eru oft stofnuð til að halda utan um tímabundin verkefni, eins og samstarfsverkefni opinberra aðila og einkaaðila eða flókin fjármögnunarverkefni til að einangra aðstandendur frá fjárhagslegri áhættu.

Í tilviki Enron voru félög með sérstakan tilgang notuð til að fela skuldir fyrirtækisins og fegra stöðu þess.

Félög af þessu tagi eru líka notuð til að fela skuldir og eignir, breiða yfir tengsl aðila, í peningaþvætti og til að blása út markaðsvirði hlutabréfa með aðferðum eins og hringfjárfestingu.