Félag frjálshyggjumanna

Félag frjálshyggjumanna starfaði 1979 - 1989 að því að kynna frjálshyggju á Íslandi með útgáfu tímarits, bóka og bæklinga og fundahaldi. Félagið var stofnað á áttræðisafmæli Friedrichs A. von Hayeks 8. maí 1979. Stjórn þess skipuðu Friðrik Friðriksson, síðar viðskiptafræðingur, sem var formaður, Auðun Svavar Sigurðsson, síðar skurðlæknir, Árni Sigfússon, síðar borgarstjóri og bæjarstjóri, Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, síðar forstjóri, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, síðar prófessor, Hreinn Loftsson, síðar lögmaður, og Skafti Harðarson, síðar framkvæmdastjóri. Félagið átti sér ýmsa öfluga bakhjarla, meðal annarra þá Pétur Björnsson, forstjóra Vífilfells, Pálma Jónsson, forstjóra Hagkaups, Odd Thorarensen lyfsala og Ragnar Halldórsson forstjóra. Stjórnarmenn voru allir sjálfstæðismenn, þótt félagið væri ekki í neinum skipulagstengslum við Sjálfstæðisflokkinn. Ýmsir forystumenn Sjálfstæðisflokksins, til dæmis Geir Hallgrímsson, Davíð Oddsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, studdu félagið með ráðum og dáð.

Félag frjálshyggjumanna gaf meðal annars út bókina Velferðarríki á villigötum (1981) eftir Jónas H. Haralz bankastjóra og Einstaklingsfrelsi og hagskipulag (1982) eftir Ólaf Björnsson prófessor. Nokkrir erlendir fyrirlesarar komu beint eða óbeint á vegum félagsins til Íslands. Frægastir voru Nóbelsverðlaunahafarnir Friedrich A. von Hayek (1980), James M. Buchanan (1982) og Milton Friedman (1984), en erindi þeirra komu út í bókinni Lausnarorðið er frelsi (1994). Þau voru einnig birt í tímaritinu Frelsinu, sem Félag frjálshyggjumanna gaf út 1980-1987. Hannes Hólmsteinn Gissurarson var ritstjóri þess 1980-1987, en Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og rithöfundur, 1987-1989. Í ritnefnd tímaritsins voru þeir Gísli Jónsson norrænufræðingur, Jónas H. Haralz, Matthías Johannessen skáld, Ólafur Björnsson og Þorsteinn Sæmundsson stjarnfræðingur. Félag frjálshyggjumanna var lagt niður, þegar ljóst þótti, að það hefði náð tilgangi sínum.