Fáni Haítí (franska: drapeau d'Haïti; haítískt blendingsmál: drapo Ayiti) er tvílitur fáni sem samanstendur af tveimur láréttum borðum, öðrum bláum og hinum rauðum. Í miðjunni eru borðarnir klofnir af hvítum ferningi sem skreyttur er skjaldarmerki Haítí. Á skjaldarmerkinu sést stríðsfang ofan á grænni hæð ásamt konungspálma sem táknar sjálfstæði landsins. Efst á pálmanum sést frýgísk húfa, sem tengd er við frelsis- og byltingarhugsjónir. Á hvítum borða undir uppsetningunni sjást kjörorðin L'Union fait la Force (ísl. „Samstaða færir styrk“). Haítíski fáninn er, ásamt þeim kostaríska, bólivíska, ekvadorska og salvadorska, einn fimm þjóðfána þar sem mynd af fánanum birtist á fánanum sjálfum.

Fáni Haítí
Borgaraleg útgáfa haítíska fánans

Núverandi hönnun breyta

Þjóðfáni breyta

Núverandi hönnun fánans var fyrst notuð sem þjóðfáni haítíska lýðveldisins á stjórnartíð Alexandre Pétion forseta árið 1806.[1] Hún var síðast tekin upp á ný þann 25. febrúar árið 2012 samkvæmt 3. ákvæði í 1. kafla núverandi stjórnarskrár Haítí:

Merki haítísku þjóðarinnar er fáninn sem samræmist eftirfarandi lýsingu:

  1. Tveir (2) borðar í jöfnum hlutföllum: annar blár fyrir ofan, hinn rauður fyrir neðan, skipað lárétt;
  2. Í miðjunni, á hvítum ferningi, sést skjaldarmerki lýðveldisins;
  3. Skjaldarmerki lýðveldisins sýnir: Konungspálma prýddan frelsishúfunni og, í skugga hans, stríðsfang ásamt undirskriftinni: Samstaða færir styrk.

Þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar er hvíti flöturinn í miðju fánans sjaldan, ef þá nokkurn tímann, látinn vera jafnhliða ferningur. Allt frá árinu 1987 hefur haítíska upplýsinga- og menntamálaráðuneytið notast við útgáfu af fánanum þar sem hvíti flöturinn er hafður í hlutföllunum 11:9.[2]

Borgaraleg útgáfa fánans breyta

Á almennri borgaralegri útgáfu fánans er skjaldarmerkinu sleppt.[3]

Litir breyta

Blár Rauður Hvítur (á skjaldarmerki) Gulur (á skjaldarmerki) Grænn (á skjaldarmerki)
RGB 0/32/159 210/16/52 255/255/255 241/181/23 1/106/22
Sextánundakerfi #00209f #d21034 #ffffff #f1b517 #016a16
CMYK 100/80/0/38 0/92/75/18 0/0/0/0 0/25/90/5 99/0/79/58

Saga breyta

Fyrsti sérhaítíski fáninn var tekinn upp þann 18. maí árið 1803, á síðasta degi þingfundar í Arcahaie, um 80 km norðan við Port-au-Prince. Samkvæmt haítískri sagnahefð var það byltingarleiðtoginn Jean-Jacques Dessalines sem bjó til fánann með því að taka franskan fána og rífa burt hvíta miðjuborðann. Hann bað síðan guðdóttur sína, Catherine Flon, að sauma saman borðana tvo sem eftir stóðu.[4] Fallist var á að blái liturinn skyldi tákna þeldökka íbúa Haítí og rauði borðinn stétt hinna kynblönduðu afkomenda frönsku nýlenduherranna. Sagan af hönnun fánans er víða þekkt á Haítí og haldið er upp á 18. maí sem fánadag í landinu auk þess sem myndir af Catherine Flon hafa birst á haítískum seðlum og frímerkjum.[5]

Eftir að hafa lýst sjálfan sig keisara undir nafninu Jacques 1. setti Dessalines landinu nýja stjórnarskrá þann 20. maí 1805. Í henni var litum þjóðfánans breytt í svartan og rauðan.[6] Henri Christophe tók upp þennan sama fána þegar hann lýsti sig konung Haítí eftir dauða Dessalines en lýðveldissinnar undir forystu Alexandre Pétion tóku síðar aftur upp bláa og rauða fánann. Stjórn Pétions færði fánann í núverandi mynd með því að láta borðana snúa lárétt og bæta við hinu nýja skjaldarmerki Haítí.

Á valdatíð keisarans Faustins 1. var persónulegt skjaldarmerki hans notað á fánanum og í opinberum erindagjörðum, en fallið var frá því eftir að Faustin var steypt af stóli.

Frá 1964 til 1986, á einræðisherratíðum feðganna François „Papa Doc“ og Jean-Claude „Baby Doc“ Duvalier var hin svartrauða hönnun Dessalines aftur tekin upp. Skjaldarmerki landsins var haft með á fánanum en bláa litnum þar var sömuleiðis skipt út fyrir svartan.

Þar sem skjaldarmerkið er einungis haft á þjóðar- og herútgáfu fánans en borgaraleg útgáfa hans samanstendur einfaldlega af borðunum tveimur kom á daginn á sumarólympíuleikunum 1936 í Berlín að haítíski fáninn leit alveg eins út og fáni Liechtenstein. Þessi líkindi leiddu til þess að kórónu var bætt á liechtensteinska fánann.[3]

Tilvísanir breyta

  1. Beauvoir, Max G. "Colors of the Flags Geymt 1 mars 2020 í Wayback Machine." Skoðað 1. mars 2020.
  2. Željko Heimer; Armand du Payrat; Zoltán Horváth; Ivan Sache (13. desember 1999). „Haiti“. Flags of the World. Sótt 1. mars 2020.
  3. 3,0 3,1 CIA- The World Factbook. Liechtenstein- Flag Description Geymt 16 september 2012 í Wayback Machine. Skoðað 1. mars 2020.
  4. Ýmsar heimildir Geymt 10 júlí 2011 í Wayback Machine. Op. cit. L'histoire d'Haiti. "18 Mai Geymt 23 ágúst 2020 í Wayback Machine." Skoðað 1. mars 2020.
  5. Clinton, Hillary. Remarks on Republic of Haiti Flag Day. 18. maí 2010. Skoðað 1. mars 2020.
  6. New York Evening Post: "Constitution of Hayti." General Dispositions: Article 20. 15 July 1805. Op. cit. Corbett, Bob. The 1805 Constitution of Haiti Geymt 28 desember 2005 í Wayback Machine. 4. apríl 1999. Skoðað 1. mars 2020.