CMYK
CMYK (oft borið fram „smikk“) er fjögurra lita frádrægt litakerfi sem er algengt í litprentun. Nafnið vísar til enskra heita fjögurra prentlita sem sumar prentvélar nota: cyan (blágrænn), magenta (vínrauður), yellow (gulur) og key black (lykilsvartur).
Í viðlægum litakerfum eins og RGB mynda allir litirnir hvítan en svartur er litleysa (alger skortur á ljósi) en í frádrægum litakerfum eins og CMYK er þessu öfugt farið þar sem hvítur er flöturinn sem prentað er á (blaðið) og því litleysa en allir þrír litirnir samanlagðir mynda svartan. CMYK-litgreining getur greint mynd í þrjá hluta þannig að svartir fletir myndist við samsetningu litanna þriggja eða í fjóra hluta þar sem svartur er prentaður sérstaklega.