Á fána Brúnei sést skjaldarmerki Brúnei á gulum fleti sem er rofinn skáhalt af svörtum og hvítum borðum. Guli flöturinn táknar soldáninn af Brúnei. Á rauða skjaldarmerkinu sést hálfmáni sem vísar upp og sólhlíf ásamt höndum til beggja hliða.

Fáni Brúnei

Í Suðaustur-Asíu er gulur hefðbundinn litur kóngafólks. Því er líka gulur flötur notaður á konungsfánum Malasíu og Taílands og á fána forseta Indónesíu. Hálfmáninn táknar íslamstrú, sólhlífin táknar einveldið og hendurnar til hliðanna tákna velvild ríkisstjórnarinnar. Svörtu og hvítu borðarnir tákna yfirráðherra Brúnei,[1] sem gegndu eitt sinn saman hlutverki ríkisstjóra og síðan, eftir að soldáninn varð lögráða, helstu ráðgjafa hans. Hvíta röndin táknar fyrsta ráðherrann (Pengiran Bendahara) og sú svarta táknar annan ráðherrann (Pengiran Pemancha, sem fór fyrir utanríkismálum). Hvíta röndin er um 12 prósentum víðari en sú svarta.[2][3]

Á hálfmánanum eru kjörorð Brúnei rituð á arabísku: „Alltaf í þjónustu undir leiðsögn guðs“ (arabíska: الدائمون المحسنون بالهدى). Á borðanum fyrir neðan hálfmánann stendur Brunei Darussalam, sem merkir „Brúnei, aðsetur friðarins“ (arabíska: بروني دارالسلام‎).

Söguágrip

breyta

Fáninn í núverandi mynd, að undanskyldu skjaldarmerkinu, hefur verið í notkun frá árinu 1906, þegar Brúnei varð breskt verndarsvæði. Þótt Brúnei hafi aðeins verið sjálfstætt að nafninu til eftir þetta fengu Brúneimenn að viðhalda tilteknum þjóðartáknum eins og fánanum.[4]

Skjaldarmerkinu var bætt við fánann árið 1959 eftir að ný stjórnarskrá var tekin upp þann 29. september það ár.[5]

Fánanum var viðhaldið óbreyttum þegar ríkið hlaut sjálfstæði þann 1. janúar árið 1984.

Tilvísanir

breyta
  1. The National Geographic Magazine. National Geographic Society. 1935. bls. 384.
  2. The Flag Bulletin. Flag Research Center. 1984. bls. 76.
  3. Annual Report: Brunei. H.M. Stationery Office. 1946. bls. 91.
  4. Horton, A. V. M. (1984). The British residency in Brunei, 1906-1959. Centre for South-East Asian Studies. bls. 15.
  5. „The Brunei Darussalam State Flag“. Information Department, Prime Minister's Office. Sótt 23. mars 2012.[óvirkur tengill][óvirkur tengill]