Eyja kaffiklúbbsins

83°40′00″N 29°50′00″V / 83.66667°N 29.83333°V / 83.66667; -29.83333

Robert E. Peary sem fann Eyju kaffiklúbbsins

Eyja kaffiklúbbsins, á grænlensku Inuit Qeqertaat, er lítil grænlensk eyja sem almennt er talin vera nyrsta fastaland jarðar.

Eyjan var uppgötvuð árið 1900 af bandaríska landkönnuðnum Robert E. Peary. Það var þó ekki fyrr en í leiðangri danska landkönnuðarins Lauge Koch milli 1921 og 1923 sem stigið var fæti á eyjuna og hún kortlögð. Það gerði Lauge Koch ásamt þremur grænlenskum Inuítum sem fóru á hundasleðum um Norður-Grænland til að kortleggja svæðið. Nafn sitt fékk eyjan eftir óformlegum kaffiklúbbi við Steinafræðisafnið í Kaupmannahöfn (Mineralogisk Museum) sem er hluti af Kaupmannahafnarháskóla.

Eyja kaffiklúbbsins er um eins kílómetra löng á 83°40′ norður og 29°50′ vestur, 713,5 kílómetra frá Norðurpólnum. Hún liggur norður af Frederick E. Hyde firði og 37 kílómetra austur af Kap Morris Jesup sem er nyrsti oddi Grænlands og var fram til 1969 talinn nyrsta fastaland heims. Það var síðan kanadískur leiðangur árið 1969 sem mældi það að nyrsti oddi hennar væri 750 metrum norðar en Cape Morris Jesup.

Hún er því almennt talinn nyrsta fastaland í heimi, ef horft er framhjá sandrifinu Oodaaq sem liggur lítið eitt norðar, norð-vestur af Eyju kaffiklúbbsins og fleirum áþekkum sand-og malarrifjum sem fundist hafa síðan 1969 en flest eru þau hverful. Ís færir þau í kaf eða eyðir þeim og ný myndast, ólíkt Eyju kaffiklúbbsins sem er stærri en svo að ís eða sjógangur nái að granda henni.

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta
   Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.