Esther Duflo (f. 25. október 1972) er fransk-bandarískur hagfræðingur[1] sem er prófessor í þróunarhagfræði við Tækniháskólann í Massachusetts. Hún er meðstofnandi og meðstjórnandi Agdul Latif Jameel-rannsóknarstofunnar fyrir fátæktaraðgerðir sem stofnuð var árið 2003.[2] Árið 2019 hlaut Duflo Nóbelsverðlaunin í hagfræði ásamt Abhijit Banerjee og Michael Kremer fyrir „tilraunanálgun sína við að milda fátækt í heiminum“.[3][4] Duflo er önnur konan sem hefur hlotið verðlaunin og auk þess yngsti handhafi þeirra frá upphafi.[5]

Esther Duflo
Esther Duflo árið 2009.
Fædd25. október 1972 (1972-10-25) (52 ára)
ÞjóðerniFrönsk og bandarísk
MenntunÉcole normale supérieure
École des hautes études en sciences sociales
Tækniháskólinn í Massachusetts
StörfHagfræðingur
MakiAbhijit Banerjee (g. 2015)
Börn2
Verðlaun Nóbelsverðlaunin í hagfræði (2019)
Verðlaun prinsessunnar af Astúríu (2015)
John von Neumann-verðlaunin (2013)
Dan David-verðlaunin (2013)
John Bates Clark-orðan (2010)
Calvó-Armengol-alþjóðaverðlaunin (2010)

Duflo er rannsóknarfélagi hjá bandarísku hagrannsóknastofnuninni (NBER), meðlimur í framkvæmdastjórn rannsóknarstofnunarinnar Bureau for Research and Economic Analysis of Development (BREAD) og framkvæmdastjóri við þróunarhagfræðideild Hagstjórnarfræðistofnunarinnar (CEPR). Rannsóknir hennar fjalla um rekstrarhagfræðileg málefni í þróunarlöndum, þar á meðal heimilisrekstur, menntun, fjármagnsaðgengi, heilsufar og stefnugreiningu. Ásamt Banerjee, Kremer, Dean Karlan, John A. List og Sendhil Mullainathan hefur Duflo talað fyrir auknu vægi vettvangsrannsókna til þess að greina orsakatengsl í hagfræði. Ásamt Banerjee samdi hún bókina Good Economics for Hard Times, sem var birt í nóvember árið 2019.

Æviágrip

breyta

Duflo fæddist árið 1972 í París. Faðir hennar var stærðfræðikennari og móðir hennar var virkur þátttakandi í margvíslegri læknisfræðilegri góðgerðastarfsemi á bernskuárum Esthers. Duflo hóf háskólagöngu sína í skólanum École normale supérieure í París og nam þar í fyrstu sagnfræði. Eftir tíu mánaða dvöl í Moskvu, þar sem Duflo vann meðal annars fyrir bandaríska hagfræðinginn Jeffrey Sachs, sem var á þeim tíma efnahagsráðgjafi rússnesku ríkisstjórnarinnar, snerist áhugi hennar að hagfræði. Árið 1994 lauk hún háskólaprófi í sagnfræði og hagfræði við ENS og hlaut næsta ár kandidatsgráðu frá Hagfræðiskólanum í París. Hún flutti síðan til Bandaríkjanna og hóf doktorsnám við Tækniháskólann í Massachusetts (MIT) undir leiðsögn Abhijit Banerjee og Joshua Angrist. Hún hlaut doktorsgráðu fjórum árum síðar og hóf feril í fræðistörfum sem starfsmaður hjá MIT. Hún var aðstoðarkennari frá 1999 til 2002 og varð fastráðinn lektor við skólann árið 2002. Þá var hún 29 ára og þar með yngsti fastráðni lektor í sögu stofnunarinnar. Hún varð prófessor árið 2004. Ásamt Banerjee stofnaði Duflo Abdul Latif Jameel-rannsóknarstofuna fyrir fátæktaraðgerðir og varð meðstjórnandi hennar árið 2005.[1]

Duflo er með bæði franskan og bandarískan ríkisborgararétt.[1]

Rannsóknir

breyta

Ásamt Banerjee og Kremer hefur Duflo þróað og kynnt til sögunnar nýjar aðferðir til að draga úr fátækt í heiminum. Þau hafa skipt fátæktarvandanum í minni og þar með áþreifanlegri og viðráðanlegri viðfangsefni, meðal annars með því að vinna að því að finna skilvirkustu aðferðirnar til að ráða bót á menntunarleysi og bæta heilsufar barna. Þau hafa gert vettvangsrannsóknir í ýmsum löndum og nálgun þeirra hefur náð fótfestu á sviði þróunarhagfræðinnar. Í röksemdafærslu sinni við afhendingu Nóbelsverðlaunanna árið 2019 sagði verðlaunanefndin að nálgun þríeykisins hefði aukið raunhæfa möguleika á því að vinna bug á fátækt. Meðal annars hefðu rúmlega fimm milljónir indverskra banda notið góðs af rannsóknum þeirra á endurskipulagningu skólakerfa og í mörgum löndum hafi fyrirbyggjandi heilbrigðisþjónustur verið bættar til muna samkvæmt ráðum hagfræðinganna.[3]

Duflo og Banerjee sömdu saman bókina Poor Economics: A Radical Rethinking of the Way to Fight Global Poverty, þar sem þau fjölluðu um rannsóknarhugmyndir sínar. Bókin hefur verið þýdd á meira en 17 tungumál.[1]

Viðurkenningar

breyta

Árið 2005 hlaut Duflo verðlaun sem „besti ungi franski hagfræðingur ársins“.

Árið 2010 hlaut hún John Bates Clark-orðuna, sem er veitt „þeim bandaríska hagfræðingi undir 40 ára aldri sem hefur lagt mest fram til hagfræðilegrar hugsunar og þekkingar á árinu“.[6]

Einkalíf

breyta

Árið 2015 giftist Duflo doktorsleiðbeinanda sínum og samstarfsmanni til margra ára, Abhijit Banerjee. Þau eiga tvö börn saman.

Tilvísanir

breyta
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Esther Duflo Short Bio and CV“.
  2. Soutik Biswas (15. október 2019). „The Nobel couple fighting poverty cliches“ (enska). BBC. Sótt 23. október 2019.
  3. 3,0 3,1 „The Prize in Economic Sciences 2019“ (PDF) (enska). Konunglega sænska vísindaakademían. 14. október 2019. Sótt 23. október 2019.
  4. Atli Ísleifsson (14. október 2019). „Fá hag­fræði­verð­launin fyrir til­raunir sínar við að lina fá­tækt“. Vísir. Sótt 23. október 2019.
  5. „Fá­tæktar­rann­sak­end­ur fá Nó­bels­verðlaun í hag­fræði“. mbl.is. 14. október 2019. Sótt 23. október 2019.
  6. John Bates Clark Medal