Estadio Pocitos var knattspyrnuvöllur í Montevídeó í Úrúgvæ. Hann var heimavöllur félagsins Nacional frá 1921 til 1933 þegar það flutti sig alfarið á Estadio Centenario. Völlurinn er kunnastur í knattspyrnusögunni fyrir að þar var fyrsta markið í sögu HM í knattspyrnu skorað.

Estadio Pocitos árið 1930.

Estadio Pocitos var teiknaður af arkitektinum Juan Antonio Scasso sem jafnframt var formaður Nacional. Hönnun hans tók mið af forn-grískum leikvöngum þar sem áhorfendur mynduðu skeifu umhverfis leikvanginn. Völlurinn varð fljótlega alltof lítill fyrir heimaliðið sem stefndi á að flytja sig á stærri völl. Þegar ákveðið var að HM í knattspyrnu 1930 færi fram í Úrúgvæ var um leið ljóst að nýr og gríðarstór leikvangur risi í borginni og að Nacional myndi færi sig þangað.

Framkvæmdatíminn við nýja þjóðarleikvanginn var knappur og að lokum varð ljóst að Estadio Centenario yrði ekki tilbúinn í tíma. Upphafsleikir heimsmeistaramótsins urðu því að fara fram á eldri völlum. Tveir leikir voru spilaðir á Estadio Pocitos, annars vegar leikur Frakklands og Mexíkó sem var annar af opnunarleikjum mótsins. Hinn var leikur Rúmeníu og Perú daginn eftir. Samkvæmt opinberum tölum (sem eru nokkuð málum blandnar) mættu 4.444 áhorfendur á fyrri leikinn en 2.549 á þann seinni.

Fyrsta markið í sögu HM í knattspyrnu var skorað í leik Frakklands og Mexíkó af Lucien Laurent. Árið 2006 tilkynnti úrúgvæski arkitektinn Héctor Enrique Benech þá niðurstöðu sína að honum hefði tekist með hjálpa gervihnattamynda að finna staðinn þaðan sem fyrsta mark HM hefði verið skorað, en völlurinn sjálfur hvarf undir íbúabyggð fljótlega eftir að Nacional flutti þaðan árið 1933.