Emil Kraepelin (fæddur 15. febrúar 1856, dáinn 7. október 1926) var þýskur sálfræðingur sem reyndi að bera kennsl á geðsjúkdóma með því að skoða og hópa saman mynstur og einkenni sjúkdóma.

Emil Kraepelin

Vinna Kraepelin

breyta

Kraepelin reyndi ekki að greina eða hópa sjúkdóma saman eftir því hversu lík einkenni sjúkdómanna voru, líkt og forverar hans höfðu gert, enda var það gagnsleysi slíkra aðferða sem fékk Kraepelin til að þróa hið nýja greiningarkerfi sitt. Kraepelin gaf sér þá forsendu að líkamlegur afbrigðileiki væri undirliggjandi fyrir hvern sjúkdóm og var þess fullviss að vísindamenn myndu einhverntíma finna meinafræðilega ástæðu fyrir hvern geðsjúkdóm.

Eitt meginatriði aðferðar hans var að gera sér grein fyrir því að nánast hvaða einkenni sem er gat birst í öðrum sjúkdómum. Sem dæmi getur nánast hvert einkenni geðklofa einnig birst í tvískautaþunglyndi, þrátt fyrir að þau séu ekki eins algeng þar. Hann gerði sér einnig grein fyrir því að það sem aðgreinir sjúkdóm er ekki eitt sérstakt einkenni hans heldur mynstur einkenna. Þannig byggðist kerfi Kraepelins á því að þekkja sjúkdóma með því að sjá einkennamynstur þeirra. Það að þekkja sjúkdóma á einkennamystri þeirra er mikilvægt þegar orsakir sjúkdóms eru ekki ljósar, líkt og í geðklofa. Með því að skoða DSM-IV kerfið sem og ICD kerfi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar má sjá að þetta atriði Kraepelins, að ákvarða sjúkdóm út frá einkennamynstri, er einmitt það sem notað er í dag og finnst einnig í öðrum kerfum.

Kraepelin renndi einnig stoðum undir þá kenningu að geðklofi og tvískautaþunglyndi gengi í erfðir með því að sýna fram á að geðklofi væri algengari meðal ættingja geðklofa en annarra. Kraepelin skrifaði einnig um mynstur geðklofa og tvískautaþunglyndis. Þar sagði hann að í geðklofa er algengast að geðheilsu sjúklingsins hraki og virkni hans minnki, á meðan tvískautaþunglyndi sé slitróttari sjúkdómur þar sem sjúklingi batni og versni á víxl. Þessi lýsing er rétt þar sem geðklofi er sjúkdómur þar sem einstaklingi hrakar á meðan sveiflurnar eru meiri í tvískautaröskun. Kraepelin er fyrstur talinn hafa gert fullnægjandi grein fyrir manic-depression, sem nú hefur verið skipt í þunglyndi og tvískautaröskun, og geðklofa sem hann gaf nafnið dementia praecox. Hann var einnig félagi Alois Alzheimers sem bar kennsl á Alzheimer sjúkdóminn.