Elliðaslysið
Elliðaslysið er sjóslys sem varð þegar nýsköpunartogarinn Elliði SI 1 frá Siglufirði fórst út af Snæfellsnesi þann 10. febrúar árið 1962. Tveir menn létust í sjóslysinu. Elliði var stálskip í eigu Bæjarútgerðar Siglufjarðar og var 645 brúttólestir og búinn 1000 hestafla gufuvél. Talið er að skipið hafi rifnað um miðbikið rétt framan við spilið þegar það fékk á sig brotsjó og vatn flætt inn í lestina. Áhöfnin var 28 manns og voru þrír björgunarbátar skipsins teknir fram þegar séð varð að það myndi sökkva, þar af tveir uppblásnir gúmmíbátar og einn stærri. Sent var út neyðarkall kl. 17:30 og kl. 19 slitnar annar uppblásni gúmmíbáturinn frá og sást ekki meir. Skömmu seinna slitnar hinn gúmmíbáturinn frá en í hann voru þá komnir tveir menn. Skömmu seinna stukku tveir skipverjar út á korkfleka sem var undir gúmmíbátnum og hvarf flekinn frá skipinu. Mennirnir sem voru eftir reyndu að þrauka eins lengi og hægt var í sökkvandi skipinu og bíða eftir hjálp frá togaranum Júpíter sem vitað að var á leiðinni. Kl. 20.20 sá Júpiter Elliða í ratsjá og fann mennina tvo á korkflekanum og var þeim bjargað í Júpíter. Kl. 21 birtist Júpiter og bjargaði áhöfninni á síðustu stundu. Í ljós koma að eini björgunarbáturinn sem þá var eftir reyndist ónothæfur.
Bókin Útkall - Örlagaskotið eftir Óttar Sveinsson fjallar um Árásina á Goðafoss og Elliðaslysið.