Einhyggja er hugtak í frumspeki sem er notað til að lýsa sérhverri kenningu sem kveður á um að einungis eitthvað eitt sé til, annaðhvort ein verund eða ein tegund verunda. Fyrrnefndu hugmyndina má nefna einhyggju um fjölda verunda en síðarnefndu hugmyndina má nefna einhyggju um tegundir verunda. Einhyggja er andstæð tvíhyggju, sem kveður á um að til séu tvær tegundir verunda, og fjölhyggju, sem kemur á um að til séu margar verundir (fjölhyggja um fjölda verunda) eða margar tegundir verunda (fjölhyggja um tegundir verunda).

Einhyggja um tegundir verunda breyta

Fyrstu vestrænu heimspekingarnir, hinir svokölluðu jónísku náttúruspekingar, voru einhyggjumenn en þeir töldu að allt sem væri til væri á endanum úr einu og sama frumefninu, það er að segja að einungis ein tegund verunda væri til. Þales taldi að frumefni og uppspretta alls væri vatn, Anaxímandros að það væri eiginleikalaust frumefni sem hann nefndi ómælið (to apeiron) og Anaxímenes að það væri loft. Einhyggja þeirra er andstæð kenningum fjölhyggjumannana sem voru að störfum tveimur kynslóðum síðar, þ.e. þeirra Empedóklesar, sem hafði þá kenningu að til væri fjögur frumefni eða rætur (vatn, eldur, loft og jarðefni) auk frumkraftanna tveggja ástar og haturs; Demókrítosar, sem hafði þá kenningu að til væru atóm og tóm; og Anaxagórasar, sem hafði þá kenningu að til væru óendanlega mörg samkynja efni (frumefni) og ósamkynja efni (efnablöndur) auk hugar. Í kenningum fjölhyggjumannanna var gert ráð fyrir mörgum tegundum verunda, annaðhvort mörgum tegundum efna eða bæði efnislegra og óefnislegra verunda.

Af svipuðum meiði er nútíma efnishyggja sem kveður á um að allt sem til er sé efnislegt. Slík efnishyggja er andstæð tvíhyggju í anda franska heimspekingsins Renés Descartes sem kveður á um að auk efnislegra hluta sé einnig til sál eða andi eða óefnislegur og sjálfstæður hugur.

Hughyggja, það er að segja sú kenning að allt sem er til sé óefnislegt, er einnig einhyggja um tegundir verunda. Írski heimspekingurinn George Berkeley var hug- og einhyggjumaður af þessu tagi.

Einhyggja um fjölda verunda breyta

Forngríski heimspekingurinn Parmenídes hafði kenningu um að allt væri eitt, Veran, og að allt annað væri óraunverulegt og ekki til. Einhyggja af þessu tagi lýsti Bertrand Russell þannig að „hvaðeina sem ekki er allt er ekkert.“ Einhyggja um fjölda verunda er andstæð fjölhyggju um fjöla verunda. Þess ber þó að gæta að fjölhyggja um fjölda verunda getur vel verið einhyggja um tegundir verunda. Þannig er nútíma efnishyggja einhyggja um tegundir verunda, af því að hún kveður á um að einungis séu til efnislegar verundir, en er yfirleitt ekki einhyggja um fjölda verunda, af því að fæstir nútíma efnishyggjumenn halda því fram að einungis sé til ein efnisleg verund.

Tengt efni breyta

Tenglar breyta

  • „Hvað er einhyggja og tvíhyggja? Hvers vegna eru þær svo fyrirferðarmiklar í sögunni?“. Vísindavefurinn.
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Monism
  • Stanford Encyclopedia of Philosophy:Neutral Monism