Egils Levits

Forseti Lettlands

Egils Levits (f. 30. júní 1955) er lettneskur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem er fyrrverandi forseti Lettlands. Hann var kjörinn forseti í maí árið 2019 og tók við forsetaembættinu þann 8. júlí sama ár. Hann gegndi embættinu í eitt fjögurra ára kjörtímabil, til 8. júlí 2023.

Egils Levits
Egils Levits árið 2022.
Forseti Lettlands
Í embætti
8. júlí 2019 – 8. júlí 2023
ForsætisráðherraArturs Krišjānis Kariņš
ForveriRaimonds Vējonis
EftirmaðurEdgars Rinkēvičs
Persónulegar upplýsingar
Fæddur30. júní 1955 (1955-06-30) (69 ára)
Ríga, lettneska sovétlýðveldinu (nú Lettlandi)
StjórnmálaflokkurLettneska leiðin (1993–1994)
MakiAndra Levite ​(g. 1991)
Börn2
HáskóliHamborgarháskóli
Undirskrift

Æviágrip

breyta

Faðir Egils Levits var Gyðingur.[1] Móður hans var vísað burt frá Lettlandi árið 1949.[2] Fjölskyldan fluttist til Vestur-Þýskalands árið 1972[3] og Levits stundaði gagnfræðanám við Das Lettische Gymnasium in Münster, sem var eini lettneski skólinn í Vestur-Evrópu á meðan Lettland var undir yfirráðum Sovétríkjanna.[4] Hann nam síðar lögfræði og stjórnvísindi við Hamborgarháskóla.[3] Frá 1984 til 1986 vann hann sem rannsakandi við Kílarháskóla.

Starfsferill

breyta

Undir lok níunda áratugarins varð Levits virkur í sjálfstæðishreyfingu Letta undan Sovétríkjunum. Hann var meðal annars meðlimur í Þjóðfylkingu Lettlands. Levits var einn af höfundum yfirlýsingar um endurreist sjálfstæði Lettlands sem samþykkt var af æðstaráði lettneska sovétlýðveldisins þann 4. maí 1990.[3]

Frá 1992 til 1993 starfaði Levits sem sendiherra Lettlands í Þýskalandi og Sviss. Árið 1993 var hann kjörinn á lettneska þingið (Saeima) með framboðslista Lettnesku leiðarinnar (Latvijas Ceļš). Levits hlaut sæti í ríkisstjórn Valdis Birkavs (1993–1994) sem varaforsætisráðherra, dómsmálaráðherra og starfandi utanríkisráðherra.[3] Eftir um eins árs setu í ríkisstjórnini varð hann sendiherra á ný frá 1994 til 1995, í þetta sinn í Austurríki, Sviss og Ungverjalandi.[3]

Árið 1995 varð Levits dómari við Mannréttindadómstól Evrópu og síðan við Evrópudómstólinn árið 2004. Levits hefur jafnframt verið sáttasemjari við gerðardóm Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og við Fasta gerðardóminn í Haag.[3]

Forseti

breyta

Levits var í framboði til embættis forseta Lettlands árin 2011 og 2015, þá með stuðningi þingflokks lettneska Þjóðarbandalagsins. Árið 2015 lenti hann í öðru sæti, á eftir Raimonds Vējonis.[3]

Levits var kjörinn forseti í fyrstu kosningaumferð þingsins þann 29. maí árið 2019 með 61 atkvæðum gegn 32.[5][6] Juris Jansons og Didzis Šmits voru einnig í framboði í kosningunum. Levits tók við forsetaembættinu þann 8. júlí 2019.[7][8]

Tilvísanir

breyta
  1. «MPs elect ex-Soviet dissident with Jewish roots as Latvian president», The Times of Israel, 29. mai 2019. Lest 29. mai 2019.
  2. «Son of Jewish engineer elected president of Latvia», Jewish telegraphic agency, 29. mai 2019. Lest 29. mai 2019.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 «Latvia's presidential candidates: Egils Levits», LSM, 17. mai 2019.
  4. «Lettland: Neuer Staatspräsident Raimond Vējonis nach Abstimmungsmarathon gewählt», Lettische Presseschau, 3. juni 2015. Lest 29. mai 2019.
  5. „Saeima elects Egils Levits as President of Latvia“. Saeima. Sótt 9. mars 2023.
  6. «Egils Levits elected as President of Latvia», Baltic News Network, 29. maí 2019. Skoðað 6. mars 2023.
  7. „Egils Levits becomes Latvian president“. LSM.lv (enska). 8. júlí 2019. Sótt 9. mars 2023.
  8. „Egils Levits officially becomes President of Latvia“. Baltic News Network. 8. júlí 2019. Sótt 9. mars 2023.


Fyrirrennari:
Raimonds Vējonis
Forseti Lettlands
(8. júlí 20198. júlí 2023)
Eftirmaður:
Edgars Rinkēvičs