Eddard Stark
Eddard Stark eða Ned Stark er lávarður yfir bænum Winterfell og verndari norðursins. Hann og eiginkona hans Catelyn Stark eiga saman fimm börn, Robb Stark, Sansa Stark, Arya Stark, Brann Stark og Rickon Stark. Auk þeirra á Ned einn son utan hjónabands. Eddard er þekktur fyrir stolt sitt og réttlætiskennd og honum mislíkar svik, ráðabrugg og leynd. Þrátt fyrir að fjölskyldu hans finnist hann vera hlýlegur maður, þá finnst sumum persónuleiki hans vera kaldur og ósveigjanlegur.
Þegar Ned Stark var yngri var honum komið í fóstur hjá Jon Arryn, ásamt Robert Baratheon. Ned vingaðist við Robert og þeir litu báðir á Jon Arryn sem föður. Eftir að Konungurinn Aerys Targaryen hafði myrt föður og bróður Neds Starks fyrir landráð, krafðist hann þess að Jon Arryn sendi honum höfuð drengjanna. Jon Arryn hafnaði því tilboði og kom af stað uppreisn til þess að hrekja geðbilaða konunginn frá völdum. Ned og Robert gengu í lið með uppreisnarmönnum og urðu leiðtogar uppreisnarinnar. Stuttu fyrir lokabardagann, giftist Ned Catelyn Tully, sem áður hafði verið trúlofuð bróður hans, Brandon Stark, áður en hann lést. Þegar deilunnu lauk tók Robert yfir krúnunni en Ned sneri aftur heim til Winterfell og tók með sér bastarðinn Jon Snow. Hann eyddi næstu fimmtán árum sem lávarður yfir Winterfell, fór sjaldan að heiman og blandaði sér ekki inn í flókin mál konungsveldisins.
Eftir andlát Jons Arryns ferðast Robert konungur til Winterfell í þeim tilgangi að biðja Ned um að taka við starfi handar konungsins, sem er náinn ráðgjafi konungsins, í stað Jons Arryns. Ned vildi hafna tilboðinu en eiginkona hans Catelyn sannfærir hann um að taka starfinu svo hann geti rannsakað dauða Jons Arryns betur. Á meðan á rannsókninni stendur uppgötvar hann að öll þrjú börn Robert Baratheons og drottningarinnar Cersei voru getin af tvíburabróður hennar Jamie Lannister. Þegar Ned ræðir við Cersei um þetta og fordæmir son hennar, Joffrey, fyrir að vera ekki hinn rétti erfingi, gefur hann henni tækifæri til þess að flýja í skömm. Í staðinn notar hún tímann sinn til þess að skipuleggja morðið á Robert og þegar hann andast, lætur hún fangelsa Ned Stark fyrir landráð. Varys nær að sannfæra Ned um að dætur hans munu sæta illri meðferð ef hann kýs að deyja virðulega. Til þess að hlífa þeim, fórnar hann mannorði sínu og lýsir því opinberlega yfir að hann hafi ætlað að stela hásætinu og viðurkennir Joffrey sem hinn réttmæta konung. Þrátt fyrir loforð Cersei um að Ned yrði sendur í útlegð og fengi leyfi til þess að ganga til liðs við menn næturvaktarinnar, þá skipar Joffrey samt sem áður fyrir aftöku Neds.
Heimildir
breyta- Fyrirmynd greinarinnar var „Major houses in A Song of Ice and Fire“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 22. apríl 2012.