Drumbabót
Drumbabót er um 100 hektara landssvæði með birkiskógarleifum við eyrar Þverár í Fljótshlíð um 9 km frá Hvolsvelli. Skógarleifarnar koma smám saman úr sandinum og eru samkvæmt aldursgreiningum frá árunum 755-830. Á fjölda árhringja má ráða að trén hafi flest verið 70-100 ára gömul. Talið er að trén hafi öll drepist samtímis í jökulhlaupi sem líklega kom úr Mýrdalsjökli af völdum Kötlugoss. Geislakolsmæling bendir til að jökulhlaupið sem grandaði skóginum á Markarfljótsaurum átti sér stað veturinn 822-23. Drumbabót er í um 45 km fjarlægð frá jaðri Mýrdalsjökuls.
Trén eru öll ilmbjörk og eru 500-600 tré á hverjum hektara. Uppgröftur á nokkrum lurkum sýnir að rót þeirra situr í sendnum 40-70 cm þykkum móajarðvegi en ofan á honum um 50 cm þykkt sandlag. Undir móajarðvegnum er malarlag.
Nokkrir fornir munir hafa fundist í Drumbabót.
Heimildir
breyta- Drumbabót (Katla Geopark) Geymt 8 ágúst 2017 í Wayback Machine
- Drumbabót fornskógur í Fljótshlíð sem varð Kötlu að bráð? (Veggspjald á Fræðaþing landbúnaðarins 2004 Geymt 27 október 2018 í Wayback Machine
- Ný aldursgreining fornskógar (Skógræktin) Geymt 9 ágúst 2017 í Wayback Machine
- Ragnheiður Gló Gylfadóttir (ritstj.),Selstaða í Drumbabót - könnunarskurðir, Fornminjastjofnun 2016[óvirkur tengill]
- Sturla Friðriksson, Járnhólkar í Drumbabót – Náttúrufræðingurinn, 3.-4. Tölublað (01.10.2006), Bls. 118-119
- Drumbabót (landakort)[óvirkur tengill]