Doði
Doði (doðasótt eða bráðadoði) er efnaskiptasjúkdómur sem leggst á spendýr, oftast kýr en einnig ær, í byrjun mjaltaskeiðs og í kringum burð. Við byrjum mjólkurframleiðslu lækkar hlutfall kalks í blóði hratt svo mikil röskun verður á allri líkamsstarfsemi og getur leitt til dauða.
Orsakir
breytaÁ síðustu vikum meðgöngu eykst þörf fyrir kalsíum, fosfór, magnesíum og kalí mikið. Þó að það sé nóg af þessum efnum í fóðrinu ganga skepnurnar á eigin forða, sem er eðlilegt upp að vissu marki, en beinin eru steinefnaforðabúr líkamans. Hætta á doða skapast einkum ef áðurnefnd steinefni vantar í fóðrið en einnig getur streita, fóðurbreytingar, óregluleg fóðrun, fjárrag og veðurbreytingar átt sök í sjúkdómnum.
Líkur á sjúkdómnum aukast með hækkandi aldir, óalgengt að kvígur fái doða, og ef fóstrin eru mörg, t.d. tvö eða fleiri lömb í ánni. Algengast er að ær fái doða fyrir burð; kýr um og eftir hann.
Einnig hefur komið fyrir að hrútar hafi fengið doða og tengist það þá engan veginn mjólkurframleiðslu eða meðgöngu.
Einkenni
breytaDoðaveikar kýr og kindur eru þróttlausar og óstyrkar til gangs. Eyrun verða köld sem og granirnar. Það hægist á allri líkamsstarfsemi og þá sérstaklega á hjartslætti. Þær þembast upp, leggja höfuð aftur með síðu. Loks missa þær meðvitund og drepast fljótt ef ekkert er að gert.
Lækning
breytaMeð því að sprauta kalki, sérstaklega bórkalki, undir húð á 2-3 stöðum hækkar kalkinnihaldið í blóði svo sjúklingurinn ætti að ná sér fljótt. Of stór kalkskammtur getur valdið hjartabilun en of lítill skammtur gerir lítið gagn.