Arthur Edmund Denis Dillon-Lee lávarður (10. apríl 181212. janúar 1892) eða Dillon lávarður var írsk-enskur aðalsmaður sem kom til Íslands sumarið 1834 og dvaldist í Reykjavík til hausts næsta ár. Hann skrifaði síðar bók um Íslandsför sína. Hann lét reisa Dillonshús, sem nú er í Árbæjarsafni.

Ditchley House um það leyti sem Arthur Dillon tók við lávarðstigninni.

Dillonsættin er írsk og eiga því lávarðarnir ekki sæti í bresku lávarðadeildinni, en ættin fluttist til Englands um miðja 17. öld og hefur að mestu búið þar síðan. Lávarðarnir bjuggu lengi á óðalssetrinu Ditchley House og þar ólst Arthur upp. Foreldrar hans voru þau Henry Augustus Dillon-Lee, 13. lávarður af Dillon, og Henrietta Browne.

Dillon á Íslandi

breyta

Arthur Dillon átti tvo eldri bræður og gat ekki búist við að taka við titlinum en lagði stund á ferðalög eftir að hann erfði auð fjár við lát föður síns 1832. Hann kom til Íslands sumarið 1834 með danska herskipinu Najaden, þá 22 ára að aldri, og hafði áður ferðast um Lappland. Hugðist hann skrifa bók um ferðalög sín. Í Reykjavík kynntist hann konu að nafni Sire Ottesen, sem réttu nafni hét Sigríður Elísa Þorkelsdóttir Bergmann. Hún var fædd 1799 og því þrettán árum eldri en lávarðurinn, fráskilin og hafði eignast tvö börn í lausaleik. Hún stóð fyrir veitingum í Klúbbnum þar sem lávarðurinn var í fæði. Með þeim tókust heitar ástir og í júní 1835 fæddist þeim dóttir sem látin var heita Henrietta eftir móður Dillons.

Lávarðurinn hafði í hyggju að kvænast Sire og setjast hér að. Hann fékk lóð í nafni Sire og lét reisa hús á svokölluðu Ullarstofutúni (Suðurgötu 2) og fluttu þau inn sumarið 1835, þegar húsið var enn ekki fullbyggt. En Dillon, sem var kaþólskur, þurfti að sækja um giftingarleyfi til danska kansellísins, enda var þá ekki trúfrelsi á Íslandi og hann eini kaþólski maðurinn í öllu landinu. Þar munu ættingjar hans hafa gripið í taumana og var giftingarleyfinu hafnað með bréfi 28. apríl 1835. Constantine bróðir hans kom til Reykjavíkur til að telja bróður sínum hughvarf. Fór svo að aðalsmaðurinn ungi gafst upp og fór úr landi um haustið, en hafði áður gefið barnsmóður sinni húsið, sem jafnan er kennt við hann og kallað Dillonshús.

Sire Ottesen bjó áfram í Dillonshúsi og rak þar lengi veitingasölu, skemmtistað og gististað og leigði Jónas Hallgrímsson húsnæði hjá henni veturinn 1841-1842. Eftir að hún hætti áfengissölu og dansleikjahaldi hafði hún ýmsa leigjendur í húsinu, þar á meðal Ágústu og Þóru Johnson, dætur Gríms Jónssonar amtmanns, sem ráku þar fyrsta kvennaskóla landsins 1851-1853. Hann var undanfari Kvennaskólans í Reykjavík, sem Þóra stofnaði síðar. Dillonshús var flutt í Árbæjarsafn 1961.

Afkomendur Dillons

breyta
 
Harold Dillon lávarður, sonur Arthurs Dillon.

Dillon gerði erfðaskrá áður en hann fór frá Íslandi og arfleiddi þar meðal annars Sire Ottesen og Henriettu dóttur sína að samtals 2.200 sterlingspundum, sem var geysimikið fé, því heildarupphæð útsvara allra Reykvíkinga sama ár svaraði til 72 sterlingspunda. Þær fengu þó aldrei þessa peninga, enda týndist erfðaskráin og fannst ekki aftur fyrr en eftir heila öld í gömlum skjalaskáp í fjármálaráðuneytinu. Auk þess létust þær báðar á undan Dillon og líklegt er að hann hafi gert aðrar erfðaskrár síðar sem ógiltu þessa, þótt hún hefði verið tiltæk.

Dillon fór heim til Englands og skrifaði fimm árum síðar bók um ferðir sínar sem hann kallaði A Winter in Iceland and Lapland. Þar minntist hann ekkert á ástkonu sína og dóttur en hann gekkst þó fúslega við Henriettu og hélt sambandi við hana. Hún fór tvívegis til Bretlands, fyrst 1871 og aftur 1874-1875, og mun hafa heimsótt fjölskylduna. Í Þjóðminjasafninu er silfurkanna sem á er grafið: To Henriette Livinsen. The Gift Of Her Father 1871 og hefur Henrietta vafalítið eignast könnuna í fyrri ferðinni. Einnig er vitað að faðir hennar sendi henni peninga.

Henrietta giftist dönskum kaupmanni í Hafnarfirði og Keflavík, Peter Ludvig Levinsen að nafni, og eignuðust þau dóttur sem ekki er vitað meira um en kann að hafa alist upp í Danmörku og son, Pétur Arthur (f. 1869), sem fyldgi móður sinni í seinni ferð hennar til Englands. þá 5 ára. Levinsen lést 1873 og Henrietta dó 28. september 1885. Levinsen var gjaldþrota er hann lést og mun Dillon lávarður hafa greitt skuldir hans.

Pétur Arthur ólst að mestu upp hjá ættingjum sínum í Danmörku eftir lát föður síns. Hann kom til Íslands haustið 1885 með legstein á gröf föður síns en þegar hann kom var nýbúið að jarða móður hans. Hann fór úr landi 1886, líklega til Danmerkur en einnig hefur því verið haldið fram að hann hafi farið til Englands þar sem afi hans hafi kostað hann í herskóla og hann hafi síðan verið í breska hernum á Indlandi. Allt er því óvíst um örlög hans.

Dillon giftist Ellen Adderly 1843 og átti með henni tvo syni. Tveir eldri bræður hans, 14. og 15. lávarðurinn, dóu án þess að láta eftir sig syni og þegar sá yngri dó 1879 tók Arthur við titlinum og varð 16. lávarðurinn. Eldri sonur hans, Harold, 17. lávarðurinn (1844-1932) var þekktur fornfræðingur með sérstakan áhuga á herklæðum, skjaldarmerkjum og klæðnaði á miðöldum og var forseti breska fornleifafélagsins 1892-1898 og safnstjóri vopnasafnsins í Tower of London 1892-1913. Hann var einn af stofnmeðlimum Bresku akademíunnar 1902.

Núverandi lávarður er Henry Benedict Charles Dillon (f. 1973) og kom hann til Íslands 1988 í tengslum við markaðssetningu á Dillons-gini, sem ÁTVR framleiddi.

Heimildir

breyta
  • „„Titillinn einn og nokkur málverk minna á ættina." DV, 7. maí 1988“.
  • „„Eldheit ást fylgir Dillonshúsi." Morgunblaðið, 3. apríl 1998“.
  • „„Heimsókn í Dillonshús til Lárusar Sigurbjörnssonar skjalavarðar." Vísir, 20. september 1963“.
  • „„Hvað varð um afkomendur Dillons lávarðar á Íslandi?" Morgunblaðið, 13. janúar 1963“.
  • „ThePeerage.com, skoðað 28. febrúar 2012“.