Davíð er í hebresku biblíunni annar konungur Ísraelsríkis.

Stytta af Davíð konungi eftir Donatello. Undir fæti hans er höfuð Golíats.

Í sögunni sem sagt er frá í biblíunni er Davíð ungur fjárhirðir sem öðlast fyrst frægð sem hörpuleikari og síðan fyrir að sigra filistínska risann Golíat með handslöngvu sinni. Sagan um Davíð og Golíat er víðfræg og táknræn fyrir lítilmagna sem vinnur bug á sterkari óvini. Davíð verður skjaldsveinn Sáls konungs og náinn vinur sonar hans, Jónatans. Sál snýst að endingu gegn Davíð af ótta við að hann hyggist ræna krúnu hans. Eftir að Sál og Jónatan láta lífið í orrustu er Davíð lýstur konungur Ísraels. Davíð hertekur síðan Jerúsalem og fer með Sáttmálsörkina inn í borgina, þar sem hann reisir konungsríkið sem Sál hafði stofnað. Sem konungur kemur Davíð Hetítanum Úría fyrir kattarnef til þess að geta haldið leyndu ástarsambandi sínu við konu hans, Batsebu. Samkvæmt sömu sögu neitar Guð Davíð síðan um leyfi til að reisa honum musteri í Jerúsalem og sonur Davíðs, Absalom, reynir að steypa honum af stóli. Davíð flýr frá Jerúsalem en snýr aftur eftir dauða Absaloms og gerist konungur Ísraels á ný. Áður en Davíð deyr velur hann son sinn, Salómon, til að taka við krúnunni.

Í spámannaritum hebresku biblíunnar er Davíð gjarnan lýst sem hinum fullkomna konungi og sem forföður Messíasar.

Sagnfræðingum um miðausturlönd til forna kemur saman um að Davíð hafi líklega verið til í kringum árið 1000 f. Kr. en fátt er vitað um hann sem sögulega persónu. Engar skýrar heimildir eru til um líf Davíðs utan biblíunnar en Tel Dan Stele-steinninn, letraður steinn sem konungur Damaskus reisti á aldamótum 9. og 8. aldar f. Kr. til að fagna sigri á tveimur óvinaþjóðum, inniheldur hebreska orðið ביתדוד eða bytdwd, sem flestir fræðimenn þýða sem „ætt Davíðs“. Sagnfræðingar efast almennt um að hið sameinaða ísraelska konungsríki sem biblían lýsir hafi verið til í raun.

Í rituðum skáldverkum og munnmælasögum Gyðinga á seinni tímum er Davíðs oft getið og jafnframt er rætt um hann í nýja testamentinu. Frumkristnir menn túlkuðu líf Jesú gjarnan með tilliti til hugmynda um Messías í sambandi við Davíð. Jesús er gjarnan túlkaður sem afkomandi Davíðs. Einnig er Davíðs getið í Kóraninum og öðrum íslömskum sögusögnum. Biblíupersónan Davíð er fyrirmynd fjölda skáldpersóna, -verka og annarra rita.

Heimild breyta