Dýptarmælir er heiti á ýmsum tækjum og aðferðum til að mæla dýpt í vatni. Dýptarmælar eru notaðir við dýptarmælingar sem kortleggja botn vatna og hafsvæða. Á sjókortum eru dýptarlínur sem byggjast á dýptarmælingum. Áður fyrr var alengt að sýna dýpt í föðmum, en nú er metrakerfið notað víðast hvar.

Dýptarmæling með lóðlínu.

Hefðbundnir dýptarmælar notast við einhvers konar lóð og línu eða stöng. Slíkar mælingar eru enn notaðar þegar farið er um grynningar. Faðmurinn dregur heiti sitt af því að línan var mæld með því að halda henni milli útréttra arma og telja svo fjölda slíkra „faðma“. Á 19. öld var farið að þróa bæði tæki og staðla til dýptarmælinga. Eitt slíkt tæki notaðist til dæmis við mæli sem snerist þar til hann lenti á botninum þannig að hægt var að lesa af honum dýptina þegar hann var tekinn upp. Á fyrri hluta 20. aldar urðu rafræn bergmálsdýptarmælingatæki smám saman algengasta aðferðin til dýptarmælinga um borð í skipum. Fiskileitartæki er sérstök tegund af bergmálsdýptarmæli sem er notað við fiskveiðar.


  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.