County Cork
Cork-sýsla (Írska Contae Chorcaí, enska County Cork) er suðvestasta og stærsta sýsla Írlands, staðsett í Munster-héraði. Oft er hún kölluð „sýsla uppreisnarsegganna“ (e. “The Rebel County”), en það stafar af því að hún tók afstöðu gegn Breska heimsveldinu í flestum deilum sem komu upp. Cork er þekkt fyrir Blarney-steininn og bæinn Cobh (áður Queenstown), síðasta viðkomustað Titanic og höfnin sem um ein milljón írskra vesturfara fór frá á leið til Bandaríkjanna, Ástralíu, Nýja Sjálands, Kanada eða Suður-Afríku. Höfuðstaður sýslunar er samnefnd, Cork, sem er næststærsta borg írska lýðveldisins og höfuðstaður héraðsins Munster. Nafnið Chorcaí, eða Corcaigh, merkir mýri, en borgin Cork er byggð á miklu mýrarsvæði nálægt ánni Lee.
County Cork Contae Chorcaí
| |
---|---|
County Cork | |
Upplýsingar | |
Flatarmál: | 7,508 km² |
Höfuðstaður sýslu: | Cork |
Kóði: | C (CK tillaga) |
Íbúafjöldi: | 518.128 (2011) |
Hérað: | Munster |
Áður fyrr var Cork-sýslu skipt í tvennt, en hinn hlutinn, sem vestari var, hét Desmond-sýsla.
Tungumál
breytaÍ Cork-sýslu eru tvö Gaeltacht svæði, þ.e. svæði þar sem írska er töluð sem aðalmál. Þau heita Múscraí (Muskerry), í norðurhluta sýslunar, og Oileán Chléire (Cape Clear), eyja í vesturhluta sýslunar sem ferja gengur til.
Mjög sérstæð mállýska írsku er töluð í Cork, kölluð Munster-írska. Hún er frábrugðin þeirri írsku sem töluð er í Connacht og Ulster bæði í framburði, hljóðkerfi og orðaforða. Dæmi:
- in aon chur (aðrar málýskur: ar chor ar bith; merkir „hvað sem því líður“)
- fé (aðrar málýskur: faoi; merkir „undir“)
- Gaelainn (aðrar málýskur: Gaeilge; merkir „írska“ (tungumálið))
- ná (aðrar málýskur: nach; merkir „[það er] ekki“)