Claudius Gothicus (10. maí 213 – janúar 270), einnig þekktur sem Claudius 2., var keisari Rómaveldis á árunum 268 til 270.

Claudius Gothicus
Rómverskur keisari
Valdatími 268 – 270

Fæddur:

10. maí 213
Fæðingarstaður Sirmium (í núverandi Serbíu)

Dáinn:

Janúar 270
Dánarstaður Sirmium
Forveri Gallienus
Eftirmaður Quintillus
Fæðingarnafn Marcus Aurelius Valerius Claudius
Keisaranafn Marcus Aurelius Valerius Claudius Augustus
Tímabil Herkeisararnir

Claudius virðist hafa verið hermaður öll sín fullorðinsár og unnið sig statt og stöðugt upp metorðastigann innan hersins. Undir forvera sínum, Gallienusi, varð hann yfirmaður í riddaraliðssveit keisarans og tók þátt í umsátri keisarans um borgina Mediolanum (Mílanó) þegar hershöfðinginn Aureolus gerði uppreisn. Gallienus var myrtur meðan á umsátrinu stóð og var Claudius þá hylltur sem keisari.

Heimsveldinu var ógnað af germönum við Dóná þegar Claudius tók við völdum auk þess sem Gallienus hafði misst völd yfir stórum landssvæðum; Gallíska keisaradæminu í vestri og Palmyru í austri. Claudius einbeitti sér fyrst að því að mæta Gotum sem valdið höfðu glundroða í Anatólíu og á Grikklandi. Claudius vann stórsigur á þeim í orrustunni við Naissus og hlaut við það viðurnefnið Gothicus. Einnig vann hann orrustu við Alemanna, sem gert höfðu innrás í norður-Ítalíu. Þessu næst sneri Claudius sér að Postumusi, hershöfðingja sem tekið hafði völd í Gallíu, Hispaníu og Britanníu og lýst sjálfan sig keisara. Ríki Postumusar er nú þekkt sem Gallíska keisaradæmið. Claudius vann Hispaníu og hluta af Gallíu aftur undir vald Rómar en lést úr plágu (mögulega bólusótt) áður en honum tókst að eyða ríki Postumusar. Talið er að Claudius hafi útnefnt einn helsta hershöfðingja sinn, Aurelianus, sem eftirmann sinn, en áður en Aurelianus varð keisari náði bróðir Claudiusar, Quintillus, völdum í nokkra mánuði.


Fyrirrennari:
Gallienus
Keisari Rómaveldis
(268 – 270)
Eftirmaður:
Quintillus