Chicago-blús er ein þekktasta tegund blústónlistar, sem þróaðist í Chicagoborg og er því kennd við borgina. Þessi tegund af blús er frábrugðin hinni “hefðbundnu” blústónlist á þann hátt að dúrhljómar koma oft við sögu ásamt því að fleiri nótur bætast við hinn hefðbundna blússkala, þannig að að áhrifin verða djasskennd. Chicago-blúsinn er einnig sérstaklega þekktur fyrir sterkann og gangandi bassatakt.

Chicago-blúsinn leggur mikla áherslu á tónlistarframburð, hljóðfærin eru öll rafmögnuð upp og eru gerð meira áberandi. Munnharpan er blásin í hljóðnema, rafmagnsgítarleikarar notast við allskyns tæknibrellur svo sem mismunandi hljóðgerfla. Í þessari tegund af blús er notast við mörg mismunandi hljóðfæri, eins og til dæmis gítar, trommur, munnhörpu, bassa, píanó, saxafón og trompet.

Blúsinn kom til Chicago með svörtum innflytjendum sem fluttust til borganna í norðri eftir Þrælastríðið í Bandaríkjunum. Þetta var snemma á tuttugustu öldinni. Blúsinn var fyrst aðeins tónlist svartra manna í borginni en vinsældir jukust og brátt fóru hvítir tónlistarmenn að taka þátt og í sameiningu þróaðist stefnan sem var síðar kölluð Chicago blús.[1]

Blús er tónlistarstefna sem upphaflega kom frá svörtum þrælum. Margir þeirra fluttust frá suðrinu eftir að hafa fengið frelsi, og margir þeirra fóru til Chicago í Illinoisfylki í Bandaríkjunum. Þetta var um 1920. Tónlist þeirra vakti mikla athygli á götuhornum og varð vinsæl. Blúsklúbbar og aðrir skemmtistaðir með blús sem ríkjandi tónlistarþema voru stofnaðir í suðurhluta borgarinnar. Fyrst og fremst voru þetta svartir tónlistarunnendur og tónlistarmenn enda var kynþáttamismunur mikill í Chicago eins og annars staðar í Bandaríkjunum á þessum tíma. Hvítt fólk fór ekki á sömu skemmtistaði og svart fólk. Þróun átti sér stað innan tónlistarstefnunnar og hún varð betri og aflmeiri. Tónlistarmenn lögðu miklar áherslur á hljóðfæraleik og þeir spiluðu á þau með mikilli innlifun og tilfinningu.

Smátt og smátt byrjaði að myndast „tónlistarbransi“ í kringum þessa nýju tegund blústónlistar sem var kölluð Chicago blús. Einstaka tónlistarmenn urðu þekktari en aðrir og plötuframleiðsla og sala varð vinsæl. Hvítir tónlistarmenn byrjuðu einnig að reyna fyrir sér í þessari nýju stefnu og gekk vel. Vinsældir jukust til muna og áhorfendahópurinn stækkaði hratt. Mikil niðurlot voru á þróun Chicago blús þegar kreppan mikla gekk í garð en borgarbúar héldu þrátt fyrir hana áfram að hlusta á og njóta tónlistarinnar. Helstu áhrif kreppunnar á tónlistina var peningaleg, það er að segja allir áttu minni pening á milli handanna svo að niðurlot urðu töluverð á framleiðslu platna. Einnig fengu tónlistarmennirnir ekki mikið borgað og varð það til þess að einhverjir fóru yfir í aðrar atvinnugreinar. Þetta var ekki einsdæmi því að það sama gerðist við margar aðrar listgreinar út um allt.[2]

Á fimmta áratugnum fjölgaði útgáfufyrirtækjum í Chicago mikið. Blúsinn var orðin gríðarlega vinsæl tónlistarstefna og hljóðmaði hann víða. Blústónlistarmenn voru ekki lengur einungis bartónlistarmenn heldur fóru þeir að fara í hljóðver, koma fram á sviði og fara í tónlistarferðalög. Helstu tónlistarmenn borgarinnar komu fram á allskyns blústónlistarviðburðum, sem voru haldnir um hverja helgi og út um alla borgina. Á sjötta áratugnum óx og dafnaði þessi tegund af blús ennþá meira en fyrr og takturinn varð harðari, sterkari hljóðfæraleikur og söngur jókst. Á þessum tíma komu stór útgáfufyrirtæki til sögunnar sem voru með marga tónlistarmenn á samningi. Dæmi um þessi fyrirtæki voru Chess, Vee-Jay og Cobra. Af þessum stóru fyrirtækjum var Chess langstærst og margir þekktustu blústónlistarmennirnir voru á samningi þar, meðal annarra Muddy Waters og Howlin' Wolf. Þessir tveir tónlistarmenn voru og eru þekktustu Chicago – blústónlistarmennirnir.[heimild vantar]

Frá sjöunda áratgunum hefur umrædd blústónlistarsefna víkkað og tekið marga óvænta snúninga. Tónleikastaðir og klúbbar í Chicago héldu áfram að vera mjög vinsælir og þá sérstaklega hjá svörtum íbúum borgarinnar. Cobra Records og Vee-Jay fór á hausinn með nokkurra ára millibili og plötuútgáfan var ekki eins sterk og áður. Chess var eina stóra blústónlistarútgáfufyrirtækið sem eftir stóð. Gamlir tónlistarmenn fengu samning þar ásamt nýjum og ferskum listamönnum eins og Ettu James og Koko Taylor. Þrátt fyrir sterka tónlistarmenningu og listamenn átti Chicago blúsinn í undanhaldi við sálartónlist og gospel. Chess fór á hausinn árið 1975 en á sama tíma voru margir gamalgrónir blúsklúbbar að hætta starfsemi sinni. Þrátt fyrir að blúsinn sé ekki eins gríðarlega vinsæll í dag og hann var á þessum tíma hefur hann alltaf verið til staðar í tónlistarflaumnum. Það er mestmegnis vegna þess að þessi tónlistarstíll hefur veitt mörgum nýrri tónlistarmönnum innblástur. Margir frægir tónlistarmenn sem á eftir komu hafa sagt að þessir gömlu blústónlistarmenn séu fyrirmyndir sínar.[3]

Chicagoborg hefur verið kölluð höfuðborg blústónlistarinnar í áratugi og er það ekki að ástæðulausu enda flest allir blústónlistarmenn þessa tíma voru þaðan. Blúsinn er í dag þekkt og vinsæl tónlistarstefna um allan heim en Chicago er og verður höfuðborg hans. Þrátt fyrir að gömlu blústónlistarstaðirnir í borginni séu ekki lengur til staðar er hægt að fara á blússöfn þar og árlega er haldin blústónlistarhátið.[4]

Tilvísanir

breyta
  1. „Blues“ á Encyclopedia of Chicago (Skoðað 18. mars 2013).
  2. „Blues“ á Encyclopedia of Chicago (Skoðað 18. mars 2013).
  3. „Blues“ á Encyclopedia of Chicago (Skoðað 18. mars 2013).
  4. „History“ Geymt 31 ágúst 2013 í Wayback Machine á vefsíðunni Chicago Blues Foundation (Skoðað 18. mars 2013).

Heimildir

breyta

Tenglar

breyta