Gári (samkvæmispáfi, budgerigar eða úndúlati) (fræðiheiti:Melopsittacus undulatus) er lítill fugl sem er ættaður frá Ástralíu. Gárar eru þar hópdýr en þeir búa í þurrsvæðum Ástralíu þar sem tegundin hefur komist af við hörð skilyrði síðustu fimm milljón árin[3]. Í náttúrunni eru gárar gulgrænir, hnakkinn er með fölbrúnum blæ og með sebraröndum. Vængir eru gulir, einnig með sebraröndum, og stélið er blátt að ofan með grænum hliðum[4].

Gári
Tekin nálægt Cameron's Corne.
Tekin nálægt Cameron's Corne.
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Páfagaukar (Psittaciformes)
Ætt: Skaftpáfagaukar (Platycercini)[2]
Ættkvísl: (Melopsittacus)
Gould, 1840
Tegund:
M. undulatus

Tvínefni
Melopsittus undulatus
(Shaw, 1805)
Náttúrulegt búsvæði gárans er hér rautt
Náttúrulegt búsvæði gárans er hér rautt

Gárar eru mjög vinsæl sem gæludýr sökum stærðar þeirra, ódýrs reksturs og getu þeirra til að herma eftir mannsröddum. Gárar eru þriðja vinsælasta gæludýr heims á eftir hundum og köttum[5]

Fyrsti gárinn var fluttur til Evrópu árið 1831. Hann var uppstoppaður en það tók breska vísindamanninn John Gould 9 ár í viðbót að koma lifandi fugli frá Ástralíu[6]. John Gould var fyrstur Evrópubúa til að skrifa um líf gára, en hann gaf út bókina „Birds of Australia“ árið 1865. Í langan tíma var þessi bók eina upplýsingaveita um vilta gára[6].

Líffræði

breyta

Gárar heyra undir flokk ástralíupáfa, en í þeim flokki er 42 tegundir og fjölmörg afbrigði[7].

Líffærafræði og lífeðlisfræði

breyta
 
Hér er mynd af líffærafræði gára, með enskum skýringum.

Fullvaxnir gárar í náttúrulendi Ástralíu eru gjarnan frekar litlir, eða 16-20 cm[6] og vega að 30-40 grömm[8]. Slíkir fuglar eru mjög líkir þessum sem þykja algengir sem gæludýr, en einnig eru til fuglar sem kallaðir eru „sýningarfuglar“. Þessir fuglar geta verið tvisvar sinnum stærri en þeir viltu. Þeir fuglar eru gjarnan með mikinn dún og eru svo fjaðramiklir í framan að það sést ekki vel í gogginn[3].

Mikið er af litaafbrigðum gára, en stökkbreytingarnar eru alls 32. Það eru þó tveir grunnflokkar: hvítur grunnur, þar sem litasamsetning samanstendur af gráum, bláum og hvítum, og gulur grunnur, þar sem samsetningin samanstendur af gulum, grá-grænum og grænum[9].

Andlit og háls

breyta

Fullorðnir gárar eru gjarnan gulir í framan, með litla fjólubláa punkta á kinnunum. Áður en þeir verða fullþroska eru þeir gjarnan með rendur frá gogg og upp eftir enni, en við fyrstu fjaðraskipti hverfa þessar rendur. Gárar geta einnig verið með hálsbletti, en það eru svartir punktar sem geta myndað mynstur líkt og hálsmen[9].

Goggur og fætur

breyta

Goggur gára er mjög einkennandi. Efri hluti hans er sterkur og rúnaður og er margfalt stærri en neðri hlutinn. Neðri hlutinn sést gjarnan ekki þegar goggur fuglsins er lokaður. Litur goggsins er oftast ólívugrænn, en það á ekki við um öll litaafbrigði gára. Fyrir ofan gogginn er svonefnd vaxhúð, en hún segir til um kyn fuglsins[9].

Fætur gára eru gjarnan blágráir á litinn, en það getur líka verið misjafnt eftir litaafbrigði (stökkbreyting). Tær gára eru mjög einkennilegar, önnur og þriðja táin vísa fram á við, en fyrsta og fjórða vísa aftur á við. Þetta kallast „zygodactyl“, og gerir þeim kleift að klifra og standa á greinum[9].

Vistfræði

breyta

Gárar lifa saman í hópum á opnum svæðum, í skóglendi og á graslendi Ástralíu. Þeir búa ekki á einum stað í einu heldur binda þeir sig við framboð matar og vatns. Þeir lifa á fræjum, grösum og hveiti.

Lífslíkur

breyta

Lífslíkur stórra sýningarfugla eru ekki jafn langar og hjá smærri gárum, eða 7-9 ár[3]. Hinn týpíski gári getur átt von á að lifa í um 15 ár[4] en þekkst hefur til tilfella þar sem þeir verða allt að 20 ára gamlir [10]

 
Hér sést stærðarmunur á sýningarfugli og hefðbundnu gæludýri. Fuglarnir vinstra og hægra meginn eru karlfuglar, en kvenfugl er á milli.

Kyn og þroskastig

breyta

Hægt er að greina kyn gára með því að skoða svokallaða vaxhúð sem þeir hafa fyrir ofan gogginn. Fullþroska karlfugl er oftast með skærbláa vaxhúð, en þeir klekjast út með bleika vaxhúð. Einnig eru til litaafbrigði af karlfuglum sem halda alltaf bleika litnum.

Kvenfuglar eru með hvíta eða ljósbláa vaxhúð, en hvítur litur er í kring um nasirnar. Þegar kvenfugl er í varphug verður vaxhúðin hins vegar brún, og að loknu varptímabili fella þær brúnu húðina [6]

Gárar búa sér til hreiður innan í trjám eða tréstaurum. Varpkassaðir eru notaðir þegar verið er að rækta fuglana. Algengast er að gárar verpi 3-5 eggjum, en verpt er á rúmlega tveggja daga fresti. Það tekur 18 daga fyrir egg að klekjast, sé það frjótt, en það getur því verið töluverður aldursmunur á elsta og yngsta unga klaks.

Gáraungar notast við svokallaða „eggtönn“ til að brjóta sér leið úr egginu. Við klak eru fuglarnir fjaðralausir og sjónlausir. Þeir eru því alveg háðir foreldrum. Þeir eru því mataðir, oftast af móður sinni, fyrstu vikur ævi sinnar. Um 6-7 daga gamlir opna ungarnir augun og byrja þeir einnig að fá fyrstu fjaðrir sínar um þetta leyti. Ungarnir verða fleygir um fjögurra vikna gamlir og eru orðnir alveg sjálfbjarga um 6 vikna gamlir [6].

 
Kvenkyns gári

Gárar sem gæludýr

breyta

Tiltölulega einfalt er að gera gára gæfa, en þess vegna er algengara að ungarnir séu foreldraaldir frekar en handmataðir. Mikilvægt er að bjóða upp á búr í nógu góðri stærð, en einnig þarf að huga að því að bil á milli rimla sé ekki meira en 12mm.

Gott er að bjóða gára upp á mismunandi prik úr náttúrulegum við ásamt því að hafa leikföng í búrinu. Sé líklegt að mikil einvera verði að degi til getur einnig verið góð hugmynd að hafa tvo eða fleiri gára.

Gárar þurfa að fá hreint vatn minnst daglega, og passa þarf fóðrið þeirra. Gárar taka hýði af þeim fræjum sem þeir borða, en því er mikilvægt að hreinsa burt hýðið svo þeir komist í fræ sem ekki eru tóm. Auðvelt getur verið að taka ekki eftir að fuglinn sé matarlaus.

Bjóða þarf gárum einnig upp á ferskmat, en flest grænmeti má gefa þeim. Gott er að lesa sig til um þetta nánar, þar sem gárar mega alls ekki borða allt. Avókadó er, til dæmis, banvæn fyrir gára. Huga þarf einnig að umhverfisþáttum, en gárar eru viðkvæmir fyrir ilmefnum, svo sem þeim sem finna má í ilmkertum. Einnig eru efni eins og teflon banvæn fyrir gára, og eiturgufurnar sem leysast upp við hitun á teflon pönnum geta orðið fuglunum að bana[6].

Tilvísanir

breyta
  1. BirdLife International (2012). Melopsittacus undulatus. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2012.1. Sótt 16. júlí 2012.
  2. Óskar Ingimarsson, Þorsteinn Thorarensen (1989). Undraveröld dýranna 10, fuglar. Fjölvaútgáfan. bls. 165.
  3. 3,0 3,1 3,2 "Dr. Marshall's Philosophy on Breeding Exhibition Budgerigars". Bird Health. 2004. Archived from the original on 2004-08-11. Sótt 3. febrúar 2016.
  4. 4,0 4,1 Budgerigar (gári). (e.d). Sótt af http://www.tjorvar.is/html/budgerigar__gari_.html
  5. Perrins, Christopher, ed. (2003). "Parrots, Lories, and Cockatoos". The New Encyclopedia of Birds (1 ed.). Oxford: Oxford University Press. ISBN 978-0-19-852506-6.
  6. 6,0 6,1 6,2 6,3 6,4 6,5 Wolter, A. og Birmelin, I. (2000). The Parakeet Handbook. New York: Barron's Educational Series, Inc.
  7. Australian Parakeets (Ástralíupáfar). (e.d.) Sótt af http://www.tjorvar.is/html/australian_parakeets__astraliu.html
  8. Forshaw, Joseph Michael; William T. Cooper (1981) [and 1st edition in 1973]. Parrots of the World (2nd ed.). ISBN 0-87666-959-3.
  9. 9,0 9,1 9,2 9,3 Budgerigar (e.d.). Everything you need to know about the Parakeet. Sótt af http://www.budgerigar.com
  10. "Birds Online — Life span of a budgie". Sótt 3. febrúar 2016.


Tenglar

breyta
   Þessi fuglagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.