Brúarjökull
64°43′00″N 16°07′00″V / 64.71667°N 16.11667°V
Brúarjökull er skriðjökull sem gengur niður úr Vatnajökli til norðausturs í átt að Brúaröræfum og nær allt frá Kverkfjöllum í vestri að Þjófahnjúkum suður af Snæfelli. Hann er víðáttumestur skriðjökla Vatnajökuls, um 40 km breiður yfir hann þveran. Jaðar hans er um 55 - 60 km langur og sá sem mest skríður fram í kílómetrum talið. Hann skreið til dæmis fram um 10 km á árunum 1963-1964 og er einn frægasti skriðjökull á Íslandi og jafnvel þótt víðar væri leitað. Hann er frekar auðveldur yfirferðar, lágur og bunguvaxinn.
Helstu ár sem falla undan Brúarjökli eru Jökulsá á Brú og Kreppa. Hann er þekktur fyrir að hlaupa oft fram með miklum látum líkt og margir skriðjöklar. Heimildir frá fyrri tíð geta um hlaup í Jökulsá á Brú, sem hækkaði þá verulega og var talið afleiðing af framhlaupi jökulsins. Framan af 18. öld hopaði jökullinn verulega en hljóp fram árið 1810. Eftir það hopaði hann aftur en hljóp síðan fram um marga kílómetra árið 1890. Var það svo öflugt hlaup að hann skóf upp jarðveg og ýtti honum upp í mikla hrauka á undan sér. Leifar af því hlaupi má sjá í miklum hraukum yfir Kringilsárrana þveran og lengra austur. Þessir hraukar eru kallaðir Töðuhraukar.
Eftir þetta mikla hlaup rýrnaði jökullinn aftur, um allt að 10 km frá hraukunum. Í október 1963 komst hann aftur á verulegt skrið og heyrðust brestirnir á efstu bæjum í Jökuldal, í Fljótsdal og í Möðrudal. Þessu skriði lauk ekki fyrr en ári seinna, 1964, en í þetta skipti skreið jökullinn ekki jafn langt fram og árið 1890.
Tenglar
breyta- Brúarjökull nat.is (skoðað 07.01.2113)