Blosseville-strönd

(Endurbeint frá Blossevilleströnd)

Blosseville-strönd er mjög fjalllend strönd á austurströnd Grænlands við Grænlandssund, á milli Scoresby-sunds í norðri og Kangerlussuaq-fjarðar í suðri á Austur-Grænlandi. Ströndin þykir illfær og hættuleg aðkomu af sjó vegna rekíss, þoku, hafstrauma og brattra klettabelta sem ganga í sjó fram. Ströndin tilheyrir sveitarfélaginu Sermersooq.

Horft suður yfir Blosseville-strönd.
Kort af Grænlandi. Blosseville-strönd er efst til hægri.

Ströndin er nefnd eftir franska liðsforingjanum Jules de Blosseville sem fórst með skipinu La Lilloise 1833, en hann rannsakaði þetta strandsvæði og gerði kort af því. Ströndin var þó fyrst skipulega kortlögð af danska sjóliðsforingjanum Georg Carl Amdrup í Carlsbergfond-leiðangrinum árið 1900.

Þótt ströndin sé brött eru engir stórir firðir sem ganga inn af henni. Þeir helstu eru Nansenfjörður og Kivioq-fjörður. Sum staðar nær Grænlandsjökull að ströndinni. Inn af ströndinni er Land Kristjáns konungs 9. þar sem Watkins-fjöll eru um 60 km frá ströndinni. Allra nyrst, við mynni Scoresby-sunds, er Brewster-höfði.