Blóðbaðið í Bologna
Blóðbaðið í Bologna var ein mannskæðasta hryðjuverkaárás sem gerð hefur verið á Ítalíu frá lokum síðari heimsstyrjaldar og með þeim síðustu í hrinu hryðjuverka sem gekk yfir landið frá 1969 og tengdist vopnaðri baráttu öfgahópa á vinstri og hægri væng stjórnmálanna kenndri við blýárin („anni di piombo“).
Morguninn 2. ágúst 1980 klukkan 10:25 sprakk tímasprengja, sem geymd var í yfirgefinni tösku í biðsalnum á lestarstöðinni í Bologna. Þetta var á háannatíma og stöðin full af ferðamönnum og fólki á leið í sumarfrí. 85 létust og yfir tvö hundruð særðust. Sprengjan var úr blöndu TNT og Hexagen-sprengiefnis.
Upphaflega var árásin tengd við Rauðu herdeildirnar, vopnuð samtök vinstrimanna, en rannsókn lögreglunnar leiddi síðan til handtöku tveggja ungra nýfasista, Valerios Fioravantis og Francescu Mambro, sem voru dæmd í lífstíðarfangelsi þótt þau hafi alla tíð haldið fram sakleysi sínu.
Hægt er að sjá merki um sprenginguna á sprungu í vegg lestarstöðvarinnar. Klukka á torginu fyrir framan stöðina sýnir stöðugt tímann 10:25 til minningar um sprenginguna.