Bjartmar Guðlaugsson

íslenskur tónlistarmaður

Bjartmar Anton Guðlaugsson (f. 13. júní 1952) er íslenskur tónlistarmaður, skáld og myndlistarmaður sem hóf að gefa út tónlist á níunda áratug 20. aldar. Lögin Súrmjólk í hádeginu (og Cheerios á kvöldin), Týnda kynslóðin, Fimmtán ára á föstu, Sumarliði er fullur, Negril, Járnkarlinn, og Þannig týnist tíminn eru meðal vinsælla laga hans.

Ferill

breyta

Á tíunda áratugnum flutti Bjartmar til Danmerkur í fimm ár og hóf þar m.a. myndlistarnám. Hann hóf feril sinn sem laga- og textahöfundur árið 1977. Bjartmar var einn vinsælasti tónlistarmaður á Íslandi á níunda áratugnum, sló í gegn árið 1987 þegar hann gaf út vinsælustu plötu sína Í fylgd með fullorðnum. Platan var næstsöluhæsta plata ársins.

Plötunni fylgdi hann eftir að ári með Með vottorð í leikfimi. „Tími þverslaufupoppsins er liðinn“, sagði Bjartmar í viðtali við Dagblaðið Vísi árið 1986 og hafði nú sýnt fram á það svo ekki var um að villast.

Áður en hann sló í gegn með Í fylgd með fullorðnum, skrifaði Bjartmar texta fyrir aðra með góðum árangri, meðal annars fyrir Þorgeir Ástvaldsson, Björk o.fl. Hann hafði einnig gefið út breiðskífurnar Ef ég mætti ráða og Venjulegur maður auk smáskífunnar Þá sjaldan maður lyftir sér upp, sem hann gerði í samstarfi við Pétur.

Bjartmari hefur oft tekist að fanga tíðarandann í textum sínum og notast við satírun, t.d. í laginu um Bastían. Textinn fjallar um ungt og ástfangið par, sem fer illa út úr samskiptum sínum við raunveruleikann. Textinn (og lagið) eru augljós skopstæling á óð Davíðs Oddssonar þáverandi borgarstjóra, Við Reykjavíkurtjörn, og lögin eru í raun fullkomnar andstæður. Bastían sá sem ákallaður er í laginu og það nefnt eftir, er að sjálfsögðu erkitýpa bæjarstjórans og vísun í frægan bæjarfógeta með sama nafni. Bæjarfógeti Bjartmars skekur hamarinn og sendir fulltrúa sinn, en í stað þess að bera skrifpúlt, stól og rúm inn í bárujárnshús við Bergþórugötuna, líkt og í texta Davíðs, „hann borðið og stólinn og skrifpúltið tók“. „Þeim hefði verið nær að byrja búskapinn við Bárujárnsgötuna“.

Frá 1977 hefur Bjartmar samið bæði fyrir aðra og eigið útgefið efni. Þá hefur hann haldið tónleika um allt land og erlendis bæði sem trúbador (einn með gítar) og hinum ýmsu hljómsveitum. Má þar nefna The Hounds, Dauðarefsing, Umbrot, Logar frá Vestmannaeyjum, Glitbrá á Hvolsvelli, Einsdæmi á Seyðisfirði, Töfraflautan, Geimsteinn (annað veifið), Járnkarlarnir, Dúndur og Bjartmar og Bergrisarnir. Auk þess hefur Bjartmar komið fram sem gestur hjá hinum ýmsu hljómsveitum.

Bjartmar sat sem fulltrúi Danmarks Radio í samnorrænni hljómsveit höfunda sem hét Nordmix í sjö mánuði (1992-1993) og spilaði hljómsveitin víðsvegar um Danmörk og Svíþjóð á hinum ýmsu tónleikahátíðum og komu fram í sjónvarpi og útvarpi. Bjartmar er höfundur lags og ljóðs á óskalagi þjóðarinnar árið 2014 „Þannig týnist tíminn“ Árið 2019 samdi Bjartmar lag og texta Þjóðhátíðar Vestmannaeyja, „Eyjarós“.

Bjartmar hefur gefið út lög og texta með öðrum flytjendum, þar má nefna plötur Björgvins Gíslasonar, Þorgeirs Ástvaldssonar (Hurðaskellir og Stúfur staðnir að verki) og fleiri lagahöfunda þar sem Bjartmar hefur séð um textagerðina. Dæmi: Logar, Papar, Stjórnin, Jón Ólafsson (Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 1989), Laddi, Hrafnar, Gústi, Ellen Kristjánsdóttir, Shady Owens, Diddú, Ragnar Bjarnarson, Lay Low, Magnús Ólafsson, GR Lúðvíksson, Rúnar Júlíusson, Pétur Kristjánsson, Björk, Jón Sigurðsson, Ísafold, Lifun, Ojbarasta og fleiri og fleiri.

Sólóferill

breyta
  • 1984 – Ef ég mætti ráða (útgefið af Geimsteini)
  • 1985 – Venjulegur maður, Nú (eigin útgáfa)
  • 1986 – Þá sjaldan maður lyftir sér upp (útgefið af Steinar)
  • 1987 – Í fylgd með fullorðnum (útgefið af Steinar)
  • 1988 – Með vottorð í leikfimi (eigin útgáfa ásamt Sigurði R. Jónssyni - Stemma)
  • 1991 – Það er puð að vera strákur (útgefið af Skífunni)
  • 1992 – Engisprettufaraldur, Haraldur (útgefið af Geimsteini)
  • 1994 – Bjartmar, eigin útgáfa (tekin upp í Svíþjóð)
  • 1997 – Tvær fyrstu á geisladisk (útgefið af Geimsteini - endurútgáfa)
  • 1998 – Ljóð til vara (útgefið af Skífunni - geisladiskur/ safnplata)
  • 1999 – Strik (útgefið af Japis)
  • 2002 – Vor (útgefið af Geimsteini)
  • 2005 – Ekki barnanna beztur (eigin útgáfa - mynd 44)
  • 2010 – Skrýtin veröld (útgefin af Geimsteini - Bjartmar og Bergrisarnir)
  • 2012 – Sumarliði, Hippinn og allir hinir (safnplata með 60 lögum og textum, útgefið af Geimsteini)
  • 2018 – Blá nótt (eigin útgáfa með 10 lögum)