Tímaritið Bjarmi hefur verið gefið út frá árinu 1907 og var fyrst kallað kristilegt heimilisblað. Útgefandi var Kristilegt bóka- og blaðafélag og ritstjóri þess Bjarni Jónsson kennari. Nokkrum árum síðar tók Sigurbjörn Á. Gíslason við útgáfu og ritstjórn fram til ársins 1936 er Bjarni Eyjólfsson, Gunnar Sigurjónsson og Ástráður Sigursteindórsson sinntu ritstjórn og ráku blaðið. Frá þeim tíma og til 1966 var blaðið í dagblaðsstærð en hefur frá þeim tíma verið í brotinu A4 blaðsíðan. Ástraður dró sig í hlé til að sinna ritstjórn barnablaðsins Ljósberans en hinir héldu áfram til ársins 1972 er Bjarni lést. Blaðið var gefið út af Gunnari til ársins 1980 er hann lést. Færðist þá eignarhaldið yfir á Samband íslenskra kristniboðsfélaga, Landssamband KFUM og KFUK og Kristilegu skólahreyfinguna og var Gunnar Jóhannes Gunnarsson ritstjóri til ársins 2003 en þá höfðu bæði Kristilega skólahreyfingin og Landssamband KFUM og KFUK dregið sig út úr rekstrinum. Ragnar Gunnarsson hefur verið ritstjóri frá 2003 með aðstoð Vigfúsar Ingvars Ingvarssonar seinni árin. Blaðið er nú gefið út af Salti ehf í samstarfi við Samband íslenkra kristniboðsfélaga sem á útgáfuna. Bjarmi er tímarit um kristna trú. Í blaðinu birtast fræðandi og hvetjandi greinar, fréttir, viðtöl og frásögur af kirkjulegum vettvangi. Það kemur út þrisvar á ári frá árinu 2013, 48 blaðsíður hvert tölublað. Upplag blaðsins er 600 eintök og að mestu selt í áskrift en einnig til sölu í lausu í Basarnum og á skrifstofu Kristniboðssambandsins. Tímaritið er aðgengilegt á timarit.is til ársins 1999 og unnið er að því að bæta inn fleiri árgöngum.