Bill Cody (f. 5. janúar 1891 í Winnipeg í Manitoba, d. 24. janúar 1948 í Santa Monica í Kaliforníu) eða William Joseph Cody jr., upphaflega Páll Pálsson Walters (eða Walter) var kanadísk/bandarískur leikari af íslenskum ættum sem lék í allmörgum B-kvikmyndum í Hollywood á þriðja og fjórða áratug 20. aldar, einkum kúrekamyndum.

Uppruni breyta

Margt er óljóst um uppruna Codys og í ýmsum uppflettiritum er hann sagður fæddur í St. Paul í Minnesota, sonur William F. Cody og Lillian Isabel Johnson, en heimildum í vestur-íslenskum og íslenskum blöðum frá því að ferill hans stóð sem hæst ber saman um að hann hafi verið sonur hjónanna Páls Valdimars Eiríkssonar og Bjargar Jónsdóttur, sem fluttu úr Skagafirði til Vesturheims 1887. Í júní 1891 dó faðir hans, sem þá kallaði sig Pál Walters, í Winnipeg og var Cody þá á fyrsta ári.

Í viðtali sem Halldór Laxness tók við Cody í Hollywood 1927 segir hann frá því að hann hafi tekið sér nafnið Bill Cody „af viðskiptalegum ástæðum“, enda er það sagt hafa vakið athygli framleiðenda á honum að hann héti sama nafni og hinn frægi Buffalo Bill Cody. Á IMDB er sagt að hann hafi fyrst leikið í tveimur myndum undir dulnefninu Paul Walters en síðan hafi verið ákveðið að hann kæmi fram undir eigin nafni, en sannleikurinn mun hafa verið þveröfugur.

Í viðtalinu sagði Cody Halldóri frá því að sjö ára gamall hefði hann verið sendur munaðarlaus til Íslands og dvalið þar í á annað ár, á Húsabakka í Skagafirði. Þar lærði hann að sitja hest, fór í smalamennsku og fékk að tína hagalagða og kaupa sér svo hatt fyrir ullina á Sauðárkróki um sumarið. Hann sagðist þó aðeins muna eitt orð í íslensku en það var harðfiskur.

Ferill breyta

Hann var svo aftur sendur vestur um haf og ólst þar upp, líklega hjá vandalausum. Hann fór svo í herskóla og síðan í háskóla, gerðist leikari og ferðaðist um með leikflokki og barst loks til Hollywood 1922, varð fyrst áhættuleikari og fór svo að leika í kúrekamyndum 1924. Hann lék aðalhlutverk í allmörgum kvikmyndum á næstu árum og framleiddi sumar þeirra sjálfur. Hann hélt áfram að leika í talmyndum eftir að gerð þeirra hófst og lék í fjölda mynda sem fengu raunar misjafna dóma; ein þeirra, The Border Menace (1934), hefur verið kölluð versta B-kúrekamynd sögunnar. Í sumum myndanna lék ungur sonur hans, Bill jr., með honum.

Ferli hans hnignaði smátt og smátt og hann ferðaðist um með Villta vesturs-sýningaflokkum en lék þó í einni og einni mynd á milli; síðasta aðalhlutverkið var í The Fighting Cowboy 1939 en eftir það lék hann smáhlutverk í nokkrum myndum, meðal annars Stagecoach og síðast í Jóhönnu af Örk 1948, en lést áður en sú mynd var frumsýnd.

Fjölskylda breyta

Kona hans hét Regina og áttu þau tvo syni. Þrálátur orðrómur er sagður hafa lengi gengið um það í Íslendingabyggðum vestanhafs að Cody væri raunverulegur faðir Ronalds Reagan, Bandaríkjaforseta, en engar sönnur hefur tekist að færa á þá fullyrðingu. Hálfbróðir Codys var listmálarinn Emile Walters, sem var vel þekktur á fyrri hluta 20. aldar.

Heimildir breyta

  • „Skagfirskur kvikmyndaleikari. Morgunblaðið, 18. desember 1927“.
  • „Bill Cody (actor). Æviferill á IMDB.com. Skoðað 31. mars 2012“.
  • „Bill Cody. Á www.b-westerns.com. Skoðað 31. mars 2012“.
  • „Laxness og faðir Reagans. Þjóðviljinn, 19. september 1987“.