Bharatiya Janata-flokkurinn

Indverskur stjórnmálaflokkur
(Endurbeint frá Bharatiya Janata)

Bharatiya Janata-flokkurinn (stundum þýtt sem Indverski þjóðarflokkurinn[1]), skammstafað BJP, er indverskur stjórnmálaflokkur sem hefur farið fyrir ríkisstjórn Indlands frá árinu 2014. Flokkurinn er hægriflokkur sem aðhyllist hindúska þjóðernishyggju. Flokkurinn hefur frá stofnun sinni haft náin tengsl við hindúsku sjálfboðahernaðarsamtökin Rashtriya Swayamsevak Sangh (RSS). Árið 2019 var BJP fjölmennasti stjórnmálaflokkur í heimi.[2]

Indverski þjóðarflokkurinn
Bharatiya Janata Party
भारतीय राष्ट्रीय पार्टी
Leiðtogi Narendra Modi (forsætisráðherra Indlands)
Forseti Jagat Prakash Nadda
Aðalritari B. L. Santhosh
Þingflokksformaður Narendra Modi (neðri þingdeild)
Thawar Chand Gehlot (efri þingdeild)
Stofnár 6. apríl 1980; fyrir 44 árum (1980-04-06)
Stofnendur Atal Bihari Vajpayee og L. K. Advani
Höfuðstöðvar 6-A, Deen Dayal Upadhyaya Marg, Nýja Delí-110002
Félagatal 180 milljónir (2019)
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Íhaldsstefna, hægristefna, hindúsk þjóðernishyggja
Einkennislitur Saffrangulur  
Sæti á neðri þingdeild (Lok Sabha)
Sæti á efri þingdeild (Rajya Sabha)
Vefsíða www.bjp.org

Söguágrip

breyta

Bakgrunnur

breyta

Bharatiya Janata-flokkurinn á rætur að rekja til ársins 1951, þegar Syama Prasad Mookerjee stofnaði hindúsku þjóðernishreyfinguna Bharatiya Jana Sangh í andstöðu við veraldarsinnaða stjórnarstefnu Indverska þjóðarráðsins. Gjarnan var litið á Bharatiya Jana Sangh sem stjórnmálaarm sjálfboðahernaðarhreyfingarinnar Rashtriya Swayamsevak Sangh (RSS), sem beitti sér fyrir vernd hindúskrar þjóðernisímyndar Indlands gagnvart múslimum, íslamska nágrannaríkinu Pakistan og gagnvart veraldarhyggju forsætisráðherrans Jawaharlals Nehru.[3] Árið 1952 vann Bharatiya Jana Sangh aðeins þrjú sæti á Lok Sabha, neðri deild indverska þingsins, og flokkurinn var áfram á útjaðri indverskra stjórnmála til ársins 1967, þegar hann gekk í nokkrar fylkisstjórnir í samstarfi við aðra flokka. Í kosningabandalögum við aðra flokka gat Bharatiya Jana Sangh þó ekki framkvæmt róttækustu stefnumál sín.[4]

Árið 1975 lýsti Indira Gandhi forsætisráðherra yfir neyðarástandi og lét í reynd afnema lýðræði á Indlandi tímabundið. Neyðarlögin leiddu til fjöldamótmæla sem hindúskir þjóðernissinnar tóku meðal annars þátt í. Í aðdraganda þingkosninga árið 1977 gengu íhaldsmenn og róttækir vinstrimenn í kosningabandalag gegn forsætisráðherranum og mynduðu með sér Janataflokkinn svokallaða.[4] Bharatiya Jana Sangh var meðal flokkanna sem gengu í þessa breiðfylkingu stjórnarandstöðunnar. Janataflokkurinn vann kosningarnar en brátt varð hugmyndafræðilegur ágreiningur milli aðildarflokkanna óyfirstíganlegur. Árið 1980 klofnaði Janataflokkurinn og boðað var til nýrra kosninga.

Stofnun BJP

breyta

Meðal margra flokka sem stofnaðir voru upp úr upplausn Janataflokksins var Bharatiya Janata-flokkurinn. Flokksmennirnir litu sumir á BJP sem beint framhald af Bharatiya Jana Sangh, sem leið formlega undir lok við samrunann í Janataflokkinn árið 1977. Stuðningur við róttæka hindúska þjóðernishyggju jókst samhliða hrinu kynþáttaofbeldis á níunda ártugnum[4] en stofnandi flokksins, Atal Bihari Vajpayee, reyndi þó að gæta hófsemis í von um að geta höfðað til fleiri kjósenda. Þrátt fyrir það vann flokkurinn aðeins tvö þingsæti árið 1984.

Þar sem flokkurinn hafði ekki náð árangri með hófsemisstefnu Vajpayee tók flokkurinn róttækari stefnu árið 1984 og L. K. Advani, sem hafði verið meðlimur í RSS, tók við sem flokksleiðtogi.[5] Hindúsk bókstafstrú hlaut aukið vægi í stefnum flokksins og þegar hindúsku þjóðernissamtökin Vishva Hindu Parishad kölluðu eftir því að Babri Masjid, moska frá 16. öld sem talin var byggð á helgum fæðingarstað hindúska guðsins Rama, yrði rifin studdi BJP málstað þeirra. Málefnið varð mikilvægur þáttur í kosningabaráttu flokksins.[6] Í kosningum árið 1989 vann flokkurinn 85 þingsæti og tók síðan sæti í samsteypustjórn forsætisráðherrans V. P. Singh.

Árið 1990 dró BJP stuðning sinn við stjórnina til baka vegna ágreinings við samstarfsflokkana um áætlað niðurrif moskunnar. Í kosningunum sem haldnar voru í kjölfarið vann BJP 120 þingsæti og náði þingmeirihluta í fylkinu Uttar Pradesh.[6] Þann 6. desember árið 1992 réðust meðlimir Rashtriya Swayamsevak Sangh, Vishwa Hindu Parishad og BJP á Babri Masjid-moskuna og rifu hana til grunna í óeirðum þar sem rúmlega 2.000 manns voru drepnir.[6] Ýmsir háttsettir flokksmenn BJP voru handteknir fyrir að hvetja til árásarinnar á moskuna, meðal annars L. K. Advani sjálfur.

Stjórnartíð 1998-2004

breyta
 
A. P. Vajpayee, fyrsti forsætisráðherra Indlands úr Bharatiya Janata-flokknum.

Árið 1998 vann BJP meirihluta á neðri deild þingsins ásamt kosningabandalagi indverskra hægriflokka og varð stjórnarflokkur samsteypustjórnar. Atal Bihari Vajpayee varð fyrsti forsætisráðherra Indlands úr BJP. Næsta ár sprakk stjórnin og kallað var til nýrra kosninga, en þar bætti BJP við sig sætum og myndaði eigin stjórn sem sat í heilt kjörtímabil, frá 1999 til 2004. Stjórn Vajpayee beitti sér fyrir efnahagsumbótum í anda nýfrjálshyggju og auknum hernaðarútgjöldum. Alþjóðleg athygli beindist að flokknum árið 2002 eftir að kynþáttaóeirðir brutust út í fylkinu Gújarat, þar sem BJP sat við stjórn undir forsæti Narendra Modi, og um 1.000 til 2.000 manns voru drepnir. Árið 2004 tapaði flokkurinn þingkosningum á móti Sameinaða framfarabandalaginu, bandalagi vinstriflokka undir stjórn Þjóðarráðsflokksins.[7]

Stjórnarseta frá 2014

breyta

Í þingkosningum árið 2009 fór flokknum aftur og hann hlaut 116 sæti en hafði haft 186 fyrir kosningarnar.[8] Árið 2014 vann flokkurinn hins vegar stórsigur á móti Þjóðarráðsflokknum og náði 282 sæta meirihluta á neðri þingdeildinni. Með samstarfsflokkum sínum stýrði flokkurinn heilum 336 þingsætum. Þingflokksformaður flokksins, Narendra Modi, varð forsætisráðherra fyrir flokkinn. Undir forystu Modi vann BJP aukinn þingmeirihluta eftir kosningar árið 2019.[9][10]

Flokkurinn vann þriðja sigurinn í röð í þingkosningum Indlands árið 2024 en glataði hreinum þingmeirihluta sínum.[11]

Hugmyndafræði og stjórnarstefnur

breyta

Uppgang BJP og samstarfsflokka hans síðustu ár í indverskum stjórnmálum má rekja til aukinnar þjóðernishyggju í Indlandi og óánægju með spillingu ýmissa áhrifamanna úr Þjóðarráðsflokknum. Talið er að Bharatiya Janata-flokkurinn hafi tapað þingkosningunum árið 2004 vegna efnahagsörðugleika og erfiðleika með að ráða úr auknum ójöfnuði í landinu.

Tilvísanir

breyta
  1. „Skattkerfisumbætur á Indlandi“. Viðskiptablaðið. 4. ágúst 2016. Sótt 25. júní 2020.
  2. „BJP becomes largest political party in the world“, The Times of India, 30. mars 2015, afrit af uppruna á 6. desember 2016
  3. Noorani, A. G. (apríl 1978). „Foreign Policy of the Janata Party Government“. Asian Affairs. 5 (4): 216–228. doi:10.1080/00927678.1978.10554044. JSTOR 30171643.
  4. 4,0 4,1 4,2 Guha, Ramachandra (2007). India after Gandhi : the history of the world's largest democracy (1. útgáfa). India: Picador. bls. 136, 427-428, 563-564. ISBN 978-0-330-39610-3.
  5. Malik, Yogendra K.; Singh, V.B. (apríl 1992). „Bharatiya Janata Party: An Alternative to the Congress (I)?“. Asian Survey. 32 (4): 318–336. doi:10.2307/2645149. JSTOR 2645149.
  6. 6,0 6,1 6,2 Guha, Ramachandra (2007). India after Gandhi : the history of the world's largest democracy (1. útgáfa). India: Picador. bls. 582–598, 633-659. ISBN 978-0-330-39610-3.
  7. „The Meaning of Verdict 2004“. The Hindu. Chennai, India. 14. maí 2004. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. september 2004. Sótt 10. desember 2013.
  8. „2009 Lok Sabha election: Final results tally“. Hindustan Times. 17. maí 2009. Afrit af upprunalegu geymt þann 15 juli 2014. Sótt 27. júní 2014.
  9. „Modi sigurvegari kosninganna á Indlandi“. RÚV. 23. maí 2019. Sótt 2. júní 2019.
  10. Andri Eysteinsson (30. maí 2019). „Modi sór embættiseið eftir stórsigur í indversku þingkosningunum“. Vísir. Sótt 2. júní 2019.
  11. Rafn Ágúst Ragnarsson (4. júní 2024). „Narendra Modi lýsir yfir sigri á Ind­landi“. Vísir. Sótt 13. júní 2024.