Bernard Mandeville
Bernard Mandeville (15. nóvember 1670 í Rotterdam, Hollandi – 21. Janúar 1733 í Hackney, Bretlandi) var heimspekingur, hagfræðingur og satíristi. Hann fæddist inn í þekkta hollenska fjölskyldu, en bjó þó mest allt sitt líf í Englandi. Hann kom af læknum, en bæði afi hans og faðir voru læknar, og Mandeville fetaði sömu braut, og útskrifaðist sem læknir frá Háskólanum í Leiden í mars árið 1691 Hann er þó þekktastur fyrir skrif sín um hagfræði, en mörg rita hans voru í formi ádeilu og satíru. Þekktasta verk hans er dæmisaga býflugnanna, sem er í bundnu máli.
Líf og störf
breytaMandeville flutti til Englands eftir Dýrlegu byltinguna sem var árið 1688. Hann settist að í Englandi, þar sem hann gifti sig og eignaðist tvö börn. Mandeville starfaði sem læknir en byrjaði fljótlega að birta greinar á ensku, en þó nafnlaust til að byrja með. Fyrstu verk hans voru þýðingar á verkum eftir frönsku rithöfundana Jean de La Fontaine og Paul Scarron.
Hann blandaði sér iðulega í stjórnmálaumræður og átök með skrifum sínum, en hann studdi hinn frjálslynda Whig-flokk. Mörg rita hans vöktu miklar deilur og umtal, en frægasta rit hans er dæmisaga býflugnanna sem hann birti árið 1705 sem nafnlausan bækling, en undir nafni árið 1716.
Dæmisaga býflugnanna (e. Fable Of The Bees)
breytaMandeville er þekktastur fyrir ljóðið um Dæmisöguna um Býflugurnar, sem hann samdi 1705. Í ljóðinu líkir hann ensku samfélagi við býflugnabú og ræðir hvernig eigingjarnar hvatir einstaklinganna leiða engu að síður til almannahags. Lestir á borð við græðgi, eyðslusemi og munað ýta undir efnahagsstarfsemi. Árið 1714 gaf Mandeville það út í bók Fable of the bees, ásamt útskýringum og ritgerð um eðli siðferðis og dyggða. Önnur útgáfa bókarinnar kom út árið 1723, ásamt tveimur nýjum ritgerðum. Árið 1729 gaf hann út annað bindi, Fable of the Bees, Part II, þar sem hann færði frekari rök fyrir kenningum sínum og hugmyndum. Í þessum ritum fjallaði Mandeville um eðli mannsins og mannlegra hvata, auk fjölmargra efnahagslegra spurninga. Þar á meðal er ítarleg umfjöllun um það hvernig verkaskipting eykur framleiðni vinnuafls.
Mandeville færir rök fyrir því að ýmsir efnahagslegir lestir, þar á meðal eyðslusemi og ríkur áhugi fyrir munaði ýti undir viðskipti og framleiðslu, og þar með almannahag. Hugmyndir hans voru mjög umdeildar og höfðu mikil áhrif, meðal annars á hugsuði "skosku upplýsingarinnar," Francis Hutcheson, David Hume og Adam Smith.
Mandeville trúði því, að líkt og dýr, þá hafa einstaklingar ástríðu fyrir hlutum og rækta áhugamál sín. Það sem þó greinir á milli þeirra er að ólíkt dýrum þá finna manneskjur til samkenndar og geta aðlagað hegðun sína í þágu samfélagslegs ávinnings sem skilar sér til aukinnar lífsgæða almennings. Verk Mandeville eru meðal fyrstu skrifa sem snerta á atriðum varðandi ávinning lögbundins samfélags, verkaskiptingu og frelsis sem þarf til persónulegra afreka ásamt þeirri þversögn að besta leiðin til að auka lífsgæði samfélagsins, er að sækjast eftir eigin hagsmunum.
Mandeville telst til hagfræðinga kaupauðgisstefnunnar (merkantilisma), en hann taldi að jákvæður viðskiptajöfnuður við útlönd væri mikilvæg forsenda vaxtar, og taldi að ríkið ætti því að hafa ríkt hlutverk í efnahagslífinu.